Rabb-a-babb 180: Sigga Garðars

Sigga í Alpatwisti. AÐSEND MYND
Sigga í Alpatwisti. AÐSEND MYND

Nafn: Sigríður Sigurbjörg Garðarsdóttir.
Árgangur: 1952.
Fjölskylduhagir:  Gift Jóni Stefáni Gíslasyni og á 3 börn, 11 barnabörn og 3 langömmubörn.
Búseta: Bý í Miðhúsum í fríríkinu (ennþá) Akrahreppi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n:  Foreldrar mínir voru hjónin Svanhildur Steinsdóttir bóndi og skólastjóri og Garðar Björnsson bóndi og rollusál Neðra-Ási og hjá þeim er ég alin upp, í dalnum sem Guð elskar.
Starf / nám: Lauk landsprófi á sínum tíma en lífsins skóli hefur kennt mér mest og best. Hef unnið við ýmislegt gegnum árin en lengst við dýrin mín og skólastarf.
Hvað er í deiglunni: Njóta lífsins og læra að haga mér eins og lífeyrisþegi.

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu?  Alveg sæmilegur minnir mig en sennilega of dugleg að láta skoðanir mínar í ljósi.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Fyrir utan baslið í kringum bévaðar rúllurnar og hárgreiðsluna þá var þetta góður og skemmtilegur dagur með gestum og gjöfum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Mig langaði til að læra að spila á fiðlu, búa í sveit en vera ekki með dýrahald.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki?  Það er ekki spurning í hugum systkina minna, - það voru bækur og allt sem hægt var að lesa.

Besti ilmurinn? Ilmurinn úr móunum og hvömmunum í Ásnum á sumrin, ekkert jafnast á við það.  Ég þarf alltaf að komast í berjamó til Ella bró á hverju sumri til að „nostalgíujafna“ mig. Í öðru sæti er lyktin sem fyllti húsið þegar jólahangikjötið kom úr reyk. Þá stalst ég til að fá mér sneið af hráu hangikjötinu og var hundskömmuð fyrir þessa ónáttúru. Svo er náttúrulega yndislegur ilmurinn af litlum börnum.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Hann var að spila á balli á Hlíðarhúsinu, sennilega 1967 eða 8.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið (hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. 17 ára)?Allt frá Bítlunum til Fats Domino og Ellu Fitzgerald, svo auðvitað allt fyrir unga fólkið sem spilað var á Gufunni, það var reyndar takmarkað.

Hvernig slakarðu á? Er í slökun alla daga.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Það er fátt sem bindur mig við sjónvarpið utan frétta. Gæti nefnt Kiljuna, föður Brown (leikarinn er algjör snillingur) og núna seinast er ég alveg óvart farin að fylgjast með Króníkunni. Annars leiðast mér langar þáttaraðir.

Besta bíómyndin? Horfi ekki mikið á myndir núorðið, hættir til að missa úr annað slagið. Veit ekki af hverju.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á?  Dáist að fötluðum afreksmönnum af báðum kynjum sem setja hvert íslandsmetið á fætur öðru og sigra á stórmótum erlendis en koma svo einhverra hluta vegna ekki til greina sem íþróttamenn ársins.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Afar þolinmóð við að leita að og finna týnda hluti

Hvert er snildarverkið þitt í eldhúsinu?  Það fer eftir því hvern þú spyrð, sumir biðja um slátrið hennar ömmu, ung stúlka biður alltaf um soðinn fisk með stöppuðum kartöflum. Mér finnst gaman að elda góðan mat og fá hóp að borðinu til að njóta. Ég held samt að aðrir verði að svara þessu

Hættulegasta helgarnammið? Hér finnst ekkert lengur sem kallast helgarnammi.

Hvernig er eggið best?  Í hnallþórum.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ekki nógu skipulögð.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Þegar fólk talar illa um náungann og svo þegar einhver stendur ekki við orð sín.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Sjaldan flýtir asinn.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég er í rimlarúminu mínu og það er ískalt í herberginu sem er inn af eldhúsinu heima í Ási. Ég veit að ekkert þýðir að heimta að fara niður á gólf því mamma stendur við eldavélina og er að kveikja upp.  Ég verð að vera þolinmóð og bíða eftir að hitni. Þarna hef ég sennilega verið á þriðja ári því rafstöðin kemur þegar ég er uþb þriggja ára.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Amelia Mary Earhart. Mig hefur alltaf langað til að vita hvar hún bar beinin í síðustu flugferðinni.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Þessi er erfið!! Millý Mollý Mandý, Lína langsokkur, Grænn varstu dalur, Híbýli vindanna og Lífsins tré, Karitas án titils og Óreiða á striga,  Ljósa, sumar af bókum Arnalds og og og. Farin að lesa ljóðabækur seinni árin. Styttri texti.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Geri það á morgun.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? 
Vigdísi Finnbogadóttur, Margréti Danadrottningu og Auði Haralds. Ég held að þetta væri mögnuð blanda í rökræðum.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Aftur til Landnáms til að vita hver sannleikurinn er um uppruna byggðar á Íslandi.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Ljómar heimur logafagur.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu. Skjótast til Grikklands til að kanna mannlífið þar, langar að kynnast landi og þjóð. Mér er sagt að þeir líkist íslendingum, þyki sopinn góður og hafi gaman af að skemmta sér. Dreymi jafnvel um minni vinnu fyrir meira kaup. Gæti verið kunnuglegt.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Fara til Hjaltlandseyja á slóðir fornra kappa.  Fara suður Sprengisand og um Fjallabaksleiðir báðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir