Rabb-a-babb 183: Lulla

Lulla lifir lífinu.
Lulla lifir lífinu.

Nafn: Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir.
Árgangur: 1977.
Fjölskylduhagir: Sjálfstæð móðir Kristínar Bjargar 16.ára.
Búseta: Sauðárkrókur.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Gerðar og Gulla í Geldingaholti sem er í Seyluhreppi hinum forna. Bjó við þau forréttindi að fá að alast upp í Holtinu með foreldrum og Jóa bróðir og með ömmu og frændfólki á næsta bæ. Það var gott að alast upp í sveitinni. Ingimundur faðir minn býr svo fyrir sunnan og þar á ég tvö systkini, Árna Heimir og Helgu.
Starf / nám: Vinn sem sjúkraliði á HSN Sauðárkróki. Í frístundum er ég svo formaður Leikfélags Sauðárkróks.
Hvað er í deiglunni: Það er margt skemmtilegt framundan. Þorrablotsvertíðin er rétt að hefjast, heimsækja vinafólk til Danmerkur og svo styttist líka í að æfingatímabil hjá LS byrji en í Sæluviku Skagfirðinga verður frumflutningur á leikritinu Á frívaktinni eftir Pétur Guðjónsson. Svo væri dásamlegt ef eitthvað almennilegt færi að gerast í kjaramálum heilbrigðisstarfsfólks.


Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Ég hef alltaf verið alveg ágætis nemandi, örlítið uppátækjasöm í heimilisfræði og fékk svo sem ekki mætingaverðlaun í íþróttum en var alltaf með miða frá pabba sem voru nýjar fréttir fyrir mömmu í foreldraviðtali á vorin en alltaf endaði skólaárið með ísferð og allir sáttir. Í fjölbraut og VMA hélt ég áfram að vera ágætis nemandi og hefur mér tekist að útskrifast þrisvar með ágætum vitnisburð

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Það sem er eftirminnilegast er hvað vinkonu minni gekk vel að krjúpa við altarið í upphlutnum, hlátursköst frá æfingunni deginum áður vegna graslauks og góð veisla.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Fyrst ætlaði ég að vera búðakona og vinna í Díubúð (KS Varmahlíð). Svo ætlaði ég að vera flugfreyja og svo var ég búin að búa til starfslýsingu sem var blanda af sálfræðingi og lögfræðingi, eina sem ég var alveg ákveðin að verða ekki er reyndar það sem ég starfa við í dag.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Bangsi sem ég dressaði upp í föt af bróðir mínum (sem var misvinsælt), búdótið og svo uppstoppaður hrafn.

Besti ilmurinn? Ný slegið gras.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Kannski framtíðar kristalkúlan svari þessari spurningu einhverntíman.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Íslensk tónlist hefur alltaf verið í uppáhaldi og þar sem ég á afmæli á þorranum hef ég sennilega verið að hlusta á Geirmund eða hringdansinn.

Hvernig slakarðu á? Með því að fara t.d í nudd, gönguferð eða klippingu. Einnig finnst ég stundum í slökun í heitum löndum með kokteilum og gærunum mínum.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Íslenskum þáttaröðum og sjúkrahús þáttum.

Besta bíómyndin? Sódóma Reykjavíkur og Kóngavegur. Af hverju? Því að sótsvartur húmor er bara svo mikil snilld.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Fótbolta stelpunni minni, Kristínu Björgu

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Spasla stofuvegginn. Já svo er ég svolítið flink að leggja hluti frá mér svona hér og þar, sem er stundum bras þegar ég þarf svo að finna þá aftur.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Pizza með pylsum og spagettí, annars er ég hinn þokkalegasti snillingur í öllum eldhúsverkum svona þegar ég nenni því, og já, svo er alltaf snilld að kunna að elda skyr.

Hættulegasta helgarnammið? Helgarnammi er ekki hættulegt – þetta snýst allt um magn.

Hvernig er eggið best? Spælt báðum megin.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Frestunarárátta.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óstundvísi og óheiðarleiki.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Ef þú brosir framan í heiminn, þá brosir heimurinn framan í þig.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Sennilega þegar ég lá handleggsbrotin á FSA þriggja ára á brúðkaupsdeginum mömmu og pabba.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Geirmundur og myndi henda í besta sveitaball ever.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Held mikið upp á Stefán Mána og Astrid Lindgren, Bæði skemmtilegir höfundar. Svo eru Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson og Pétur Guðjónsson í uppáhaldi sem handritshöfundar. Af hverju? Ægir hefur skrifað tvö frábær leikrit fyrir okkur hjá LS og Pétur er að skrifa handrit sem lofar mjög góðu.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Nota „passaðu þig“ svolítið mikið þessa dagana, enda með barnið mitt í æfingaakstri. Svo koma alltaf nýjir frasar við hvert æfingatímabil hjá LS þannig að þeir sem eru í virkir núna eru „þetta er alveg rosalegur krani“ og „þetta er ofsa góð drulla“.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Mömmu, pabba og ömmu, því þau voru mér afar kær og mikilvæg og kenndu mér svo margt í skóla lífsins.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Held ég færi bara aftur í þann tíma þar sem ég var uppátækjasamur krakkagrís, sumarkvöld í sveitinni, fjölskyldusamvera og pönnsur hjá ömmu eru bara svo góðar minningar.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Lífsdans Lullfríðar.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til NY með viðkomu á Tene.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Klára eitt nám sem ég er alltaf á leiðinni í, fleiri gæðastundir með fjölskyldu og vinum og ferðast til fleiri landa.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir