Rabb-a-babb 215: Erla Jóns

Erla Jónsdóttir í Kambakoti í Skagabyggð. MYND AÐSEND
Erla Jónsdóttir í Kambakoti í Skagabyggð. MYND AÐSEND

Erla Jónsdóttir svaraði Rabb-a-babbi í 4. tölublaði Feykis 2023. Hún er fædd 1974, gift Jóhanni Inga Ásgeirssyni og saman eiga þau tvö börn; Freyju Dís 19 ára og Loga Hrannar 14 ára. Fjölskyldan býr í Kambakoti í Skagabyggð en Erla er aðflutt, ólst upp á Álftanesi á Mýrum þar til hún var 14 ára en þá flutti fjölskyldan á Akranes. Erla vasast í einu og öðru en hún er framkvæmdastjóri Lausnamiða ehf., oddviti Skagabyggðar, stjórnarformaður Stapa lífeyrissjóðs og fleira.

Rabbið:

Hvað er í deiglunni: Að taka inn tvö hross í vetur og njóta að vera til.

Hvernig nemandi varstu? Svona oftast miðjumoðari.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Fermingarkortið sem á stóð Erla Atladóttir.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Kennari og hestakona eins og Imba kennari sem kom ríðandi í skólann.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Það voru plastdýrin mín, ég rak búgarð með þeim dýrum, útihús úr legó og girðingar úr tvinnakeflum.

Besti ilmurinn? Af nýfæddum lömbum.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Það var á skrifstofu Skagstrendings sumarið 1999, ég nýflutt til Skagastrandar og hann kom að snuðra þegar fréttist að mættur væri nýr starfsmaður. :-D

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Það var nú ýmislegt sem tekið var upp á kasettu og hún svo spiluð í ræmur á rúntinum á Akranesi. Allt frá ballöðum í þungarokk, fór bara eftir því hvernig stóð á.

Hvernig slakarðu á? Leggst í sófann og kveiki á imbanum, ef ég þarf hins vegar endurnæringu þá fer ég í göngutúr eða á hestbak.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Horfi nú sjaldnast á línulega dagskrá nema þá helst EM eða HM í handbolta.

Besta bíómyndin? Stella í orlofi, hún kemur manni alltaf til að hlæja.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég myndi vilja vera fjármálaráðherra og þá myndi ég breyta skattkerfinu þannig aðstöðumunur landsmanna yrði jafnaður.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Margir góðir en ég dáist mjög að þeim Sveindísi Jane og Glódísi Perlu.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Púff, þau geta öll toppað mig ef þau bara vilja.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ætli það sé ekki „kjöt í röstý.“

Hættulegasta helgarnammið? Heitt súkkulaði með einhverju góðu út í.

Hvernig er eggið best? Hænueggin eru best svona varla harðsoðin en hettumáfseggin alveg linsoðin.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Segi alltof sjaldan nei.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki.

Uppáhalds málsháttur eða til-vitnun? Lífið er æði.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Það er þegar ég fór í kaupstaðinn með mömmu til þess að kaupa mér typpi og bræður mínir gerðu þvílíkt grín að mér þegar ég sagði þeim að það hefði ekki verið til í búðinni.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Uppáhaldsbókin mín í mörg ár var Helgi fer í göngur, ég kunni hana næstum alla utan að. Í dag les ég meira fræðibækur og sögur byggðar á raunverulegum atburðum.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Þú segir...“

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Það væru Svafa Grönfeldt, Guðfinna S. Bjarnadóttir og Guðrún Högnadóttir, þetta eru konur sem ég hef mikið litið upp til og væri pottþétt áhugavert að kynnast yfir góðum kvöldverði en ég þekki enga þeirra í dag.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Úff, núna í þessum kulda myndi ég örugglega bara velja fyrstu ferð fjölskyldunnar til Tenerife.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Bara Erla” – fólki hefur alltaf fundist það svo lítið að heita „bara Erla“ en ævisagan myndi nú sennilega enda í ritröð. :-D

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Tenerife.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Spilla barnabörnunum (sem ekki eru getin enn), klára að byggja jarðirnar mínar upp og fara í fleiri hestaferðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir