rabb-a-babb 31: Guðbjartur

Nafn: Guðbjartur Haraldsson.
Árgangur: 1970 og batna með árunum.
Fjölskylduhagir: Giftur Jónu Kolbrúnu Árnadóttur og við eigum tvær dætur Sigurlaugu Ingu 8 ára og Gyðu Kolbrúnu 2 ára.  Sem er hæfileiki út af fyrir sig.
Starf / nám: Ligg fram á lyklaborð hjá Upplýsinga- og tæknisviði KB banka er verkefnisstjóri þar í hugbúnaðardeild.
Bifreið: Volkswagen Passat.
Hestöfl: Alveg nóg til að komast norður
.
Hvað er í deiglunni: Fjölskyldan, það er verið að byggja pall og reyna að klára áður en puttarnir detta af vegna kulda.

Hvernig hefurðu það? 
Alveg þokkalega góður takk.
Hvernig nemandi varstu? 
Úff ... ég held að ég hafi verið ágætis nemandi, örugglega mikið á ferðinni og fyrirferðamikill ... enda sleit skólinn í sundur hjá mér félagslíf og íþróttir ... en ég er alla vega hér í dag.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 
Þegar ég vaknaði þá þurfti ég að grafa fjölskylduna út úr húsinu uppi í hverfi því það hafði snjóað svo mikið um nóttina.  Ég skreið út um glugga á efri hæð til að byrja að moka.  Ég á engar myndir af fermingardeginum!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?  
Þetta sveiflaðist helling alla æskuna, maður horfði á Conwoy og þá ætlaði maður að verða trukkabílstjóri en ég held að þetta hafi snemma byrjað að blunda í mér að starfa við eitthvað sem ég gæti skrúfað í sundur og látið virka á meðað það er ekki endilega saman .. þannig að ég endaði í tölvunum.
Hvað hræðistu mest? 
Að komandi kynslóðir fái ekki að kynnast Íslandi eins áhyggjulaus og ég.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Besta plata sem ég hef keypt er More Than A Feeling með Boston enda á ég hana á vinyl og tvö eintök á geisladisk þar af eitt sem enn er í plastinu.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí?  
Ef þú sérð mig í Kareókí þá er eitthvað að ... en ef ég þarf að syngja ... kannski eitthvað með Duran ... skiptir ekki máli þó laglínu sé ekki fylgt.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? 
Formúlu 1 ... og íþróttum annað sé ég bara seinna ... nú eða ekki.
Besta bíómyndin? 
Paradísarbíóið ( Cinema Paradiso ) sem er tær snilld, Shawshank Redemption og Secondhand Lions sem kom mér mikið á óvart.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? 
Bruce og Angeline Jolie ... það fer Clooney einhvern veginn ekki að vera blóðugur í hlýrabol ... þannig að .. auðvelt val.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? 
Allt of mikið ... á það til að koma með tvo poka þegar ég er sendur út eftir mjólk.
Hvað er í morgunmatinn? 
Hádegismaturinn! Er að reyna að borða morgunmat,  það er sagt að það sé gott fyrir mann. Súrmjókin frá KS verður oft fyrir valinu.
Uppáhalds málsháttur? 
Segðu fátt og segðu það vel, Blessun vex með barni hverju og síðast en ekki síst Lofa skal mey að morgni, veður að kvöldi.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Lukku Láki, Svalur og Valur ómissandi í uppvextinum

.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  
Mér er sagt að ég sé ágætur í eldhúsinu en líklega eru það snilldar pylsur og pasta réttur sem hefur tekið mörg ár að fullkomna.  Hugsanlega líka hversu góður ég er að setja mismundandi hráefni í mismunandi skálar.

Hver er uppáhalds bókin þín? 
Misery eftir Stephen King.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... 
?til Alabama  í USA með fjölskyldunni og tæki kannski golfkylfurnar með.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?  
Hvað ég er oft lengi að hafa mig af stað í að gera suma hluti.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Hvað aðrir eru lengi að koma sér í að gera suma hluti.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? 
Meistarar meistaranna Nottingham Forest,  það er sko ekki leiðinlegt að halda með þeim, flakk á milli deilda og þess háttar.  Menn bara gefa sín lið aldrei upp á bátinn

.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? 
Zico, Jordan og Michael Schumacher og tengdapabba!
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? 
Diskóið... var rosalegur með sítt að aftan!
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? 
Pabbi.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? 
Er golfsettið einn hlutur? Hníf og öngla.
Hvað er best í heimi? 
Mér þykir afskaplega vænt um fjölskylduna mína, síðan þykir mér rosalega gaman að keyra niður Vatnsskarðið og sjá Skagafjörðinn koma smátt og smátt í ljós.
Hvað úr Skagafirðinum vantar í Kópavoginn? 
Hvað er þetta í mörgum tölublöðum?  Þetta er eitthvað sem ekki er hægt svara,  hvað heldur þú að Gunnar Birgis myndi segja ef ég myndi sækja um lóð fyrir Tindastólinn? Nei það er ekki hægt að svara þessu,  það er bara einn Skagafjörður og ég vil hafa hann þar sem hann er ... hins vegar vantar mig í Skagafjörðinn!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir