rabb-a-babb 34: Sólrún Harðar

Nafn: Sólrún Harðardóttir.
Árgangur: 1964.
Fjölskylduhagir: Á einn karl og 10 hænur.
Starf / nám: Verkefnastjóri hjá Hólaskóla og námsefnishöfundur.
Bifreið: Toyota HiLux - glænýr.

Hestöfl: Nógu mörg.
Hvað er í deiglunni: Jólahald og skrif.

Hvernig hefurðu það? 
Ég hef það mjög gott.
Hvernig nemandi varstu? 
Ég var mikill fyrirmyndarnemandi að sjálfsögðu.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 
Líklega þegar ég sagði ?já?. Pabbi var búinn að segja mér að tala hátt ...og það undirtók í kirkjunni. Eins man ég vel eftir því þegar ég fékk skóna sem hölluðu afturábak. Þetta voru flottustu skór sem ég hafði nokkurn tíma séð og mig hafði dreymt um að eignast svona skó.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Það kom ýmislegt til greina. Þegar ég var 4ra ára ætlaði ég að verða hárgreiðslukona. Aðrar hugmyndir komu upp á yfirborðið síðar: efnafræðingur, þroskaþjálfi, landslagsarkitekt, myndlistarmaður (í mussu!), kortagerðarmaður en svo fór ég í Kennaraháskólann sem var nú nokkuð gott val. Það er góður skóli.
Hvað hræðistu mest?
 Ég er yfirleitt ekki hrædd, en ég er líka varkár og kem mér því sjaldan í aðstæður þar sem ég hræðist.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Líklega keypti ég fyrst Spilverk þjóðanna. Ég dýrkaði Spilverkið og Þursaflokkinn. Annars var fyrsta platan mín með Bessa Bjarnasyni.
Hvaða lag ertu líklegust til að syngja í Kareókí?
 Völuvísu - en það er örugglega ekki hægt að fá undirspilið svo þetta fellur bara um sjálft sig.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? 
Áramótaskaupinu.
Besta bíómyndin? 
Gestaboð Babettu, eða kannski Amalie, nei Tvöfalt líf Verónikku, Óbærilegur léttleiki tilverunnar.... ég get ekki valið!
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? 
Ég þekki ekki þetta fólk, en kannast þó við nöfnin!
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann?
 Hanskarnir mínir og alpahúfan.
Hvað er í morgunmatinn?
 Morgunkorn og mjólk, appelsínusafi, lýsi og vítamín.
Uppáhalds málsháttur? 
Sá hlær best sem síðast hlær. Þessi málsháttur er venjulega sagður við fyndnar aðstæður og því er hann skemmtilegur. Mér er hins vegar frekar illa við Heimskur jafnan höfuðstór.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Ferdinant en Kalvin er líka ferlega góður.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?
 Hálfmánar koma fyrst upp í hugann!
Hver er uppáhalds bókin þín?
 Gullkornabókin mín. Hún er þannig að ég skrifa í hana það sem mér finnst athyglisvert, fallegt eða flott í því sem ég er að lesa. Þetta er sem sagt mín eigin tilvitnanabók.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
 kannski í dalinn þar sem er lítill bóndabær og yndisleg náttúra og tíminn er óþrjótandi. Þar er gott að vera.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?
 Neikvæðni og tilætlunarsemi. Sem betur fer umgengst ég fáa með þessi einkenni.
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á?
 Alberti frænda, hann er í blaki.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? 
Diskó Friskó.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati?
 Skúli minn ... frá mínum bæjardyrum séð.
Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér?
 Ég tæki með mér blað, blýant og flösku... fyrir náttúrulega utan hlý föt og gönguskó.
Hvað er best í heimi? 
Kærleikur og ást.
Hvernig eru Skagfirðingar? 
Ég held að þeim þyki öllum vænt um Skagafjörð, en að öðru leyti er þeir jafnólíkir og þeir eru margir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir