rabb-a-babb 44: Björn Jóhann

Nafn: Björn Jóhann Björnsson.
Árgangur: 1967.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Eddu Traustadóttur hjúkrunarfræðingi, börnin eru Aron Trausti 11 ára og Tinna Birna 6 ára.
Starf / nám: Blaðamaður og fréttastjóri á Morgunblaðinu.

Bifreið: Skoda Octavia, árg 2005.
Hestöfl: Þrusukerra, eiginlega of mörg í bensíndýrtíðinni, fer að verða ódýrara að fljúga á Krókinn.
Hvað er í deiglunni: Flytjast með Mogganum út í Móa og fara svo í sumarfrí.

Hvernig hefurðu það? 
Bara nokkuð gott, þakka þér fyrir.
Hvernig nemandi varstu? 
Oftast þægur, stundum til smá vandræða, var þó tekinn á skólastjórateppið bæði í Barnaskóla og Gagganum, reyndar ekki einn míns liðs.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 
Þegar presturinn gleymdi Jóni Trampe og ég steig á kirtilinn frá því að krjúpa við altarið. Aldrei verið fimur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Man það ekki svo glöggt, en blaðamannsdraumar létu snemma á sér kræla, fyrir alvöru á Feyki.
Hvað hræðistu mest? 
Froðufellandi og gargandi hunda. Óþolandi kvikindi.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Fyrsta var Bad með Michael Jackson, hafði á þeim tíma óþroskaðan tónlistarsmekk, en sú besta er Innrásin frá Mars, maður fær enn gæsahúð er Richard Burton hefur upp raust sína.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? 
You?ll never walk alone, í græjunum heima.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? 
Aðþrengdum eiginkonum og Lost, skil reyndar ekki af hverju, eitthvert óútskýranlegt afl sem togar mann að skjánum.
Besta bíómyndin? 
The Fog er enn klassísk í minningunni, sem og Land og synir.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? 
Willisinn klikkar aldrei, Clooney er orðinn of útvatnaður og vinstrisinnaður fyrir minn smekk. Harðgiftur maðurinn telur Jolie vera betri kost.
Hvað fer helst í innkaupakerruna sem ekki er skrifað á tossamiðann? 
Dóttir mín, hún vill alltaf fá að sitja í. Sem betur fer ekkert strikamerki á henni.
Hvað er í morgunmatinn? 
Súrmjólk og hafrakoddar, LGG og lýsispillur fastur liður, enda hættur að fá flensu, sjö-níu-þrettán.
Uppáhaldsmálsháttur? 
Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Ekki misskilja mig, en ég verð að segja Tinni. Þar gætu blaðamannsdraumar hafa kviknað, þó að ég muni reyndar ekki eftir því að hafa lesið eða séð Tinna skila einni einustu frétt. Hann yrði ekki lengi í vinnu á Mogganum.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? 
Statífið fyrir eldhúsrúllurnar, sem ég renndi í smíðunum hjá Jóa Friðriks. Lífseig listasmíð.
Hver er uppáhaldsbókin þín? 
Fyrir utan bókina um Álftagerðisbræður þá dettur mér helst í hug Rímorðabókin eftir minn gamla íslenskukennara í Háskólanum og sveitunga, Eirík Rögnvaldsson. Ómissandi við vísnagerðina, bíðiði bara eftir ljóðasafninu.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
Ef ég ætti að borga flugfarið, færi ég sennilegast til Færeyja, annars til S-Afríku að spila golf.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? 
Samviskusemin ætlar mann stundum lifandi að drepa, meiri slökun, minna stress.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Þegar menn gera grín að Liverpool, einnig þegar menn hlæja ekki að bröndurum.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? 
Liverpool, þú verður eiginlega að spyrja Óskar bróðir. Nei, nei, þetta þarfnast ekki útskýringa. Allir vita hvernig fór á móti West Ham á dögunum, og muniði eftir AC Milan í Istanbúl? Aldrei afskrifa Rauða herinn, ekki þótt 10 sekúndur séu eftir og dómarinn kominn með flautuna í munninn.
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á? 
Fyrst þessu er blandað saman koma upp í hugann kappar eins og Alli Munda í Tungu, Baldi Kristjáns og Pálmi Sighvats. Þeir færðu miklar fórnir fyrir málstaðinn.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? 
Hvorugt, Lífsdansinn og Eitt lag enn.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? 
Allt of stór spurning til að við henni fáist vitrænt svar. Ætlaði að fara að svara Davíð Oddsson en hætti við til að losna við háðsglósur og mögulegt einelti.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? 
Sólarrafstöð, tölvu og Lost-þættina á DVD.
Hvað er best í heimi? 
Ekki Thule, Carlsberg er miklu betri í bland við Seaman?s Shot.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir