rabb-a-babb 69: Gréta Sjöfn

Nafn: Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir.
Árgangur: 1961.
Fjölskylduhagir: Þeir eru eins og best verður á kosið,  maðurinn minn er Pétur í Víðidal, börnin eru fjögur; Þorsteinn Frímann, Anna Lilja, Helga Sjöfn og Aron.  Tengdadóttir Rósa Marý og 2ja ára sonardóttir Bríet Stefanía.

Starf/nám: Starfa sem verkefnisstjóri málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra ásamt því að vera forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Bifreið:  Í vinnunni keyri ég Skoda Octavíu sem er alveg frábær. Heim-ilisbíllinn er Izuzu Trooper jeppi, hann er líka góður.
Hestöfl:  Það er feikinóg af hestum á bænum.
Hvað er í deiglunni:  Það er allt í deiglunni eftir sumarið, koma börnunum af stað í skólann, göngur og réttir, vinna og sveitar-stjórnarmál.

Hvernig hefur þú það?
 Nokkuð gott, þakka þér fyrir.
Hvernig nemandi varstu?
 Þokkaleg, var strax nokkuð krefjandi nemandi, gat verið hreinskiptin og fór mínar eigin leiðir, tók síðasta árið í grunn-skóla nokkuð létt, ögraði kennurum og skólastjóra.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 Það er tvennt, annað þegar fermingarbróðir minn tók út úr sér oblátuna og setti hana inn í sálmabókina upp við gráturnar, við hin flissuðum og flissuðum, einnig það að mamma hætti ekki fyrr en ég samþykkti með semingi að setja blóm í hárið fyrir myndatöku, ekki alveg eins og ég vildi hafa þetta.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
 Það var minn draumur að verða strákur, það var svo margt skemmtilegt sem strákar máttu gera en stelpur ekki þegar ég var að alast upp.
Hvað hræðist þú mest?
 Stríð og ofbeldi.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir?
 Pippi Langström, lítil tveggja laga plata.
Hvað lag ertu líklegust til að syngja í Kareoki? 
Traustur vinur með hljómsveitinni Upplyftingu, það er alveg pottþétt að þá syngja allir með.
Hverju missir þú ekki af í sjónvarpinu fyrir utan fréttir?
 Skoskum sakamálaþáttum, James Bond og  rómantískum gamanmyndum.
Besta bíómyndin? 
Lion King, hún er svo falleg, klassa mynd.
BruceWillis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow:  Pottþétt Bruce Willis, hann er flottastur.
Uppáhaldsbókin?
 Þessi er erfið, margar góðar bækur sem ég hef lesið um tíðina, ætli það sé ekki best að nefna bókaflokkinn Þrautgóðir á raunarstund, allavegana er titillinn fínn.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðan?  Lesefni og skór.
Hvað er í morgunmatinn? 
Ég byrja á svörtu te og lýsi, fæ mér síðan KS súrmjólk með múslí, eftir það er ég til í allt.
Uppáhaldsmálsháttur?
 Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? 
Brauð og tertur af ýmsu tagi, einhver myndi nú segja að það væri snilldarverk að ég sjáist í eldhúsinu.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færir þá færirðu... 
Til Kúbu, ég hef lengi ætlað að fara þangað, hefði áhuga á að fara meðan Kastró er á lífi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?
 Stjórnsemi og það að ég á það til að gráta yfir bíómyndum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Hroki, hégómi og ábyrgðarleysi.
Heim í Búðardal eða Disko Friskó?
 Heim í Búðardal, það var lagið sem við vinkonurnar hlustuðum á í þá gömlu góðu.
Hver var mikilvægasta persóna 20 aldarinnar að þínu mati?
 Stefanía amma, hún hafði mikil mótandi áhrif á mig, kenndi mér æðruleysi, virðingu og væntumþykju, sem ég hef reynt að temja mér og lifa eftir.
Ef þú ættir eftir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækiriðu með þér? 
Er ekki skynsamlegt að taka með sér bát til að komast heim aftur, fjölskyldumynd til að horfa á í einsemdinni og mat til dvalarinnar.
Hvað er best í heimi? 
Þessi er einföld, samvera með fjölskyldu og vinum, Skagafjörður og íslenskt vatn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir