Á móti straumnum, mynd Óskars Páls, verðlaunuð

Óskar Páll Sveinsson. Mynd af Facebook.
Óskar Páll Sveinsson. Mynd af Facebook.

„Maður er bara gríðarlega þakklátur og stoltur fyrir hönd allra sem komu að gerð þessarar myndar, þarna vorum við að keppa við mikið af flottum myndum frá hinum norðurlöndunum þannig að þetta kom skemmtilega á óvart, segir Óskar Páll Sveinsson, kvikmyndagerðarmaður frá Sauðárkróki, en heimildarmynd hans Á móti straumnum var verðlaunuð sem besta norræna myndin á ævintýramyndahátíðinni NAFF í Danmörku, Nordic Adventure Film Festival.

Í myndinni er sagt frá transkonunni Veigu Grétarsdóttur sem siglir á kajak í kringum Ísland rangsælis, eða á móti straumnum, í þrjá mánuði. Í kynningu myndarinnar er hún sögð táknræn og segir samtímis frá ferðinni í kynleiðréttingarferlinu og svo frá ferðinni á róðrinum á kajak þar sem glímt er við náttúruna um hvor hefur betur. Myndin lýsir innri baráttu Veigu um líf eða dauða hvort sem er í lífinu sjálfu eða ein úti á kajak.

Óskar segir það óhemju gaman að fylgja myndinni eftir og sjá og heyra viðbrögð fólks. „Ég er búin að sitja fyrir svörum á nokkrum kvikmyndahátíðum erlendis og það er alltaf gaman að heyra hvernig áhorfendur upplifa myndina, oft á mjög ólíkan hátt,“ segir Óskar en hvað skyldi hafa komið mest á óvart í þessu ferli öllu?

„Það sem hefur komið mest á óvart er hversu mikil vinna tekur við þegar myndin er tilbúin. En það er skemmtileg vinna að fylgja þessu eftir, þannig að það er mjög erfitt að kvarta.“

Það er í mörg horn að líta hjá Óskari en nú vinnur hann að langtímaverkefni með ljósmyndaranum Ragnari Axelssyni, Rax, sem tengist Grænlandi og svo segir hann nokkrar hugmyndir í vinnslu sem fara af stað á nýju ári.

Hér má sjá stiklu úr myndinni https://kvikmyndir.is/mynd/?id=13106

Fleiri fréttir