Góður árangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður í skeiðkeppninni

Frá keppni í 150 metra skeiði. MYND: FREYJA BERGSDÓTTIR
Frá keppni í 150 metra skeiði. MYND: FREYJA BERGSDÓTTIR

Skeiðmót Meistaradeildar KS fór fram á Sauðárkróki fyrr í dag. Í frétt á Facebook-síðu deildarinnar segir að náðst hafi flottir tímar miðað við árstíma og veður og ekki margir sprettir sem klikkuðu. Sigurvegarar í 150m skeiði reyndust Agnar Þór Magnússon og Kastor frá Garðshorni frá Þelamörk sem fóru brautina á tímanum 14,7 sek. Þá var einnig keppt í gæðingaskeiði og við erfiðar aðstæður voru það Klara Sveinbjörnsdóttir með Gletti frá Þorkelshóli sem sigruðu.

Í öðru sæti í 150 metra skeiði, rétt á eftir þeim Agnari Þór og Kastor, var Guðmar Hólm Líndal með hryssuna sína Alviðru frá Kagaðarhóli á tímanum 14.73. „Í þriðja sæti var villiköttur greinarinnar, Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II á tímanum 14.77, í því fjórða Daniel Gunnarsson og Kló frá Einhamri 2 á tímanum 14.94 og Þórarinn Ragnarsson og Bína frá Vatnsholti í því fimmta á tímanum 15.02,“ segir í fréttinni.

Það var Dýraspítalinn Lögmannshlíð sem sigraði liðakeppnina í 150 skeiðinu með 65 stig. Liðsmenn þeirra voru Agnar Þór, villkötturinn Konráð Valur og Höskuldur Jónsson.

Gæðingaskeið

Aðstæður voru erfiðar þegar keppni fór fram í gæðingaskeiði en sem fyrr segir voru það Klara og Glettir frá Þorkelshóli sem fóru með sigur af hólmi. Í öðru sæti voru Þórarinn Eymunsson og Þráinn frá Flagbjarnarholti og í því þriðja Vignir Sigurðsson og Sigur frá Bessastöðum. Agnar Þór Magnússon og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk voru í því fjórða og í fimmta Daníel Gunnarsson og Strákur frá Miðsitju.

Uppsteypa sigraði liðakeppnina í gæðingaskeiðinu með 59 stig en liðsfélagarnir Vignir, Þorsteinn og Elvar Logi voru allir í topp 10.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir