Allt á suðupunkti í Síkinu þegar Stólarnir lögðu ÍR

Leikur Tindastóls og ÍR sem fram fór í Síkinu í kvöld var æsispennandi og frábær skemmtun og ekki eyðilagði það ánægjuna fyrir fjölmörgum stuðningsmönnum Tindastóls sem lögðu leið sína í Síkið að Stólarnir fóru með sigur af hólmi, 94 -90. Jafnræði var með liðunum og vannst til að mynda enginn leikhluti með meira en tveimur stigum.

Gestirnir hófu leikinn heldur betur en Stólarnir, komust í 4-9,  Stólarnir jöfnuðu í 9-9, enÍR-ingar voru þó yfirleitt skrefinu á undan. Tindastólsmenn voru þó yfir 20-19 eftir körfu frá Helga Rafni þegar skammt var eftir af leikhlutanum. Helgi var geysilega grimmur og má sannarlega segja að hann hafi séð um að draga vagninn. Bæði lið léku skínandi sóknarbolta í öðrum leikhluta og skoruðu grimmt. Isom var að venju iðinn við kolann fyrir heimamenn og náði 20 stigum í fyrri hálfleik. Nemenja Sovic átti stjörnuleik fyrir ÍR-inga þó svo heimamenn væru ekki alltaf sáttir við hegðun hans á gólfinu. Kappinn gerði alls 33 stig í leiknum og setti 18 af 22 skotum sínum niður. Tindastóll komst í 35-29 en ÍR-ingar komu til baka og jöfnuðu 37-37. Stólarnir voru þó heldur sterkari síðustu mínúturnar og gengu til leikhlés þremur stigum yfir, 49-46.

ÍR liðið kom ákveðið til leiks eftir hlé og náði fimm stiga forskoti þegar 4 mínútur voru liðnar, 51-56. Þegar um 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum kom Jarvis ÍR 10 stigum yfir með fyrri 3ja stiga körfu sinni í leiknum en kappinn var skotglaður fyrir utan línu en hitti afleitlega, setti niður tvær í 15 tilraunum. Nú blés Helgi Rafn til varnar og sóknar og ekki var Axel neitt að gefa honum eftir. Hver boltinn af öðrum vannst í vörninni og Stólarnir náðu með frábærri baráttu að gera síðustu 12 stigin í þriðja leikhluta, staðan 70-68 og allt að verða vitlaust í Síkinu.

Fjórði leikhluti var skiljanlega æsispennandi enda sæti í úrslitakeppninni ágætis gulrót fyrir leikmenn. Bæði lið máttu alls ekki við að tapa leiknum og því var ekkert gefið eftir. ÍR-ingar jöfnuðu í 77-77 með seinna 3ja stiga skoti Jarvis sem fór rétta leið. Nú náðu Stólarnir góðum kafla og komust í 84-77 með fimm stigum frá Rikka og tveimur vítaskotum Helga Rafns og í kjölfarið bættu Svabbi og Helgi við tveimur körfum en í millitíðinni gerði ÍR 3 stig af vítalínunni. Staðan 88-80 og fjórar mínútur eftir, stuðningsmenn Tindastóls orðnir nokkuð öruggir með sig. Það var auðvitað gjörsamlega misráðið því ÍR-ingar réðu ráðum sínum og gerðu sér lítið fyrir og settu 10 stig á meðan Stólarnir klóruðu niður einu vítaskoti en vítahittni heimamanna var döpur í leiknum. ÍR sem sagt með stigs forskot, 89-90, þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Síðustu fimm stig leiksins voru heimamanna. Fyrst jafnaði Visockis metin 90-90 af vítalínunni og Helgi Rafn kom Stólunum í 92-90 eftir að Sovic klikkaði á 3ja stiga skoti. Jarvis klikkaði síðan á skoti innan teigs og í kjölfarið var brotið á Isom sem tryggði sigur Tindastóls með tveimur skotum af vítalínunni. Lokatölur 94-90 og frábær stemning í Síkinu.

Isom átti enn einn stórleikinn í kvöld, gerði 29 stig, tók 6 fráköst og átti 9 stoðsendingar auk þess að stela 5 boltum. Helgi Rafn var í hörkustuði;  gerði 20 stig, tók 8 fráköst, stal 4 boltum og átti 3 stoðsendingar auk þess að pirra leikmenn ÍR sem sjaldan fyrr. Þá var Rikki sæmilega heitur og skoraði nokkrar mikilvægar körfur og setti 15 stig, Visockis náði 14 stigum og 7 fráköstum.

Kalli Jóns, þjálfari Tindastóls, tjáði Feyki að Stólarnir hafi ekki átt sinn besta dag. -Mér fannst leikurinn einkennast af mikilvægi hans og varnarleikurinn ekki upp á marga fiska oft á tíðum. En mínir menn börðust eins og ljón og gáfust aldrei upp og við náðum nokkrum sinnum ágætum sprettum á báðum endum vallarins og einn af þeim var þarna undir lokin. Núna er einn leikur eftir í deildinni og við viljum klára deildarkeppnina á góðum og jákvæðum nótum og reynum að hala inn tvö stig til viðbótar. -

Lið Tindastóls stendur ágætlega að vígi fyrir lokaumferðina sem fer fram nú á fimmtudaginn. Liðið er sem stendur eitt í sjöunda sæti með 16 stig. Í lokaumferðinni mæta Stólarnir Fjölni í Grafarvogi sem með sigri kæmist upp fyrir Stólana. ÍR og Hamar eru einnig í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni og gætu með sigri komist upp fyrir Stólana ef þau vinna leiki sína og Stólarnir tapa. ÍR fær Grindavík í heimsókn í síðustu umferð og Hamar mætir Keflvíkingum í Keflavík. Ef Stólarnir sigra Fjölni þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur af andstæðingum sínum og tryggja sjöunda sætið. Koma svo!

Stig Tindastóls: Isom 29, Helgi Rafn 20, Rikki 15, Visockis 14, Svabbi 11, Axel 4 og Sigmar 1.

Fleiri fréttir