Ályktun Hagsmunasamtaka landeigenda vegna Holtavörðuheiðarlínu 3
Stofnfundur Hagsmunasamtaka landeigenda vegna Holtavörðuheiðarlínu 3 var haldinn þann 14. janúar. Samtökin eru samstarfsvettvangur landeigenda og ábúenda jarða í Húnaþingi þar sem aðalvalkostur Landsnets vegna Holtavörðuheiðarlínu 3 liggur um.
Tilgangur samtakanna er að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart ríkinu, Landsneti, sveitarfélögum og einkaaðilum, sem og heildarhagsmuna þeirra gagnvart málefnum orkumannvirkja í héraðinu. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum og var stjórn samtakanna falið að koma henni á framfæri við fjölmiðla, stjórnvöld og félög er málið varða.
„Hagsmunasamtök landeigenda vegna Holtavörðuheiðarlínu 3 afþakka lagningu línunnar samkvæmt fyrirliggjandi aðalvalkosti um lönd félagsmanna sinna og benda ríkinu sem eiganda Landsnets og Landsneti hf. á að nýta megi annan valkost. Það gengur gegn stefnu ríkisins um lagningu raflína að leggja hana ekki stystu leið. Samkvæmt Umhverfismatsskýrslu Landsnets felur fyrirhugaður aðalvalkostur í sér verulega aukinn framkvæmdakostnað og hefur umtalsvert meira kolefnisspor samanborðið við aðra valkosti. Vel er mögulegt að styrkja raforkuflutningskerfi landsins og finna línunni annan hentugan stað og þannig koma í veg fyrir að framkvæmdin raski framtíðarþróun byggðar, búsetu og rekstri á bújörðum.“
f.h. Hagsmunasamtaka landeigenda vegna Holtavörðuheiðarlínu 3
Friðrik Már Sigurðsson, formaður stjórnar
