Barist um stystu leið að ánni

Til átaka kom á milli ferðaþjónustuaðila í Skagafirði sl. föstudag. Voru þar á ferð starfsmenn Bakkaflatar og Hestasports en bitbein starfsmannanna var réttur fyrirtækjanna til að komast stystu leið að Jökulsá vestari.
Báðir aðilar hafa þinglýstan leigusamning um sitt hvorn skikann við bóndann á Villinganesi.

Bakkaflatarmenn hafa þegar lagt veg að ánni um sinn skika sem styttir akleiðina niður um þrjá kílómetra. Sá vegur var hins vegar lagður án tilheyrandi leyfa og mun nú þurfa að fara fyrir deiliskipulag og sækja í framhaldinu um tilskilin leyfi. Hestasport hefur sótt um að leggja veg við hlið vegar Bakkaflatar en verið synjað.

Er til átakanna kom höfðu starfsmenn Hestasports farið án heimildar með ferðamenn niður veg Bakkaflatar og því höfðu hinir síðarnefndu lokað rútu Hestasports af niður við ána. Var þá þriðji aðili kallaður til með kranabíl til þess að draga í burtu bílinn er lokaði rútuna af. Er þarna var komið sögu sauð allt upp úr og er bílstjóri kranabílsins var dreginn út úr bíl sínum, rann hann á annan bíl sem skemmdist.

Bílstjórinn hefur kært líkamsárás og á móti hafa Bakkaflatarmenn kært Hestasport fyrir húsbrot, eða umferð um einkaveg án leyfis umráðamanns.

Fleiri fréttir