Drengur miður sín yfir eyðilögðu hjóli
Ungur drengur er miður sín eftir að hann fann hjólið sitt gjöreyðilagt við Árskóla í gær, en hjólið hafði staðið við skólann yfir helgina. Að sögn móður hans er engu líkara en að einhver fullorðinn einstaklingur hafi verið þar að verki.
„Það er gjörónýtt. Það er búið beygja stýrið það mikið að mér þykir ólíklegt að barn eða unglingur hafi gert það því til þess þarf mikinn styrk,“ sagði Sigrún Heiða Pétursdóttir móðir drengsins. „Þetta er mjög sorglegt og skrýtið mál. Hjólið var að öllum líkindum læst við hjólagrind og því engu líkara en að lásinn hafi verið klipptur, hjólið tekið og ekið yfir það nokkrum sinnum og svo sett aftur á sinn stað.“
Málið er sérlega biturt þar sem drengurinn varð fyrir því óláni að hjólinu hans var stolið fyrir tveimur árum en samkvæmt Sigrúnu hafði hjólið, sem hafði verið tekið af fullorðum einstaklingi, komist til skila. Svo hafði drengurinn safnað sér sjálfur fyrir þessu hjóli í rúmt ár.
„Hann er alveg miður sín!“ sagði Sigrún og bætti við: „Hann ætlaði ekki að treysta sér til þess að fara í skólann í dag, en fór á endanum. Hann skilur ekki hver getur gert svona lagið og tekur þessu náttúrulega sem persónulegri árás á sig. Hver sem gerði þetta hefur líklega ekki hugsað út í hvaða afleiðingar þetta getur haft á litla sál. Ég hugsa að sá hinn sami myndi hugsa öðruvísi ef að systkinabarn, bróðir, systir eða barn viðkomandi myndi lenda í þessu sama. Mér finnst afar sorglegt að vita til þess að þegar tíu ára barn gleymir hjólinu sínu í skólanum sé það eyðilagt, ég hreinlega skil þetta ekki.“
Að sögn Sigrúnar hafa þau ekki enn komist að því hver var þarna á verki og óskar hún því hér með eftir upplýsingum um málið.