Eftirminnilegur safnadagur

 
 

Safnadagurinn 11. júlí var viðburðaríkur í sögu Byggðasafns Skagfirðinga. Aldrei hafa jafn margir gestir komið í Glaumbæ á einum degi. Sennilega hafa hátt í 1000 manns gengið um gamla bæinn þann daginn, 925 voru taldir, og margir heimamenn.

 Í Minjahúsið á Sauðárkróki komu 91. Í Minjahúsinu var boðið upp á erindi um líferni hvítabjarna. Samtals hafa gestir byggðasafnsins þennan daginn verið yfir 1000 manns

 

Tveir starfsmenn safnsins, safnstjóri og deildarstjóri fornleifadeildar héldu snemma dags suður á Reykjanes á fund forseta Íslands, því safnið hafði verið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna og verðlaunin voru afhent þennan daginn. Ekki varð sú ferð til fjár. Aðrir starfsmenn safnsins og sjálfboðaliðar, alls 23 að meðtöldum ökumönnum 10 nýuppgerðra og fínpússaðra dráttarvéla, sem komu í sunnudagskaffi í Glaumbæ í tilefni dagsins, tóku á móti mannfjöldanum og buðu fólki að heyra, sjá og smakka ýmislegt sem ekki stendur daglega til boða. Dráttarvélarnar vöktu mikla lukku meðal fullorðinna. Börnin gátu brugðið sér í búleik með horn og bein á meðan foreldar, afar og ömmu klöppuðu vélum og ökumönnum og gengu til bæjar.

Inni í bæ var strokkað og boðið upp á nýstrokkað smjör með harðfiski og rúgbrauði. Í baðstofunni hélt Kristín Halla uppi fjörinu með fiðluleik á meðan Guðríður, María, Valdís, Kristín, Margrét og Stefanía sýndu ýmis handbrögð og aðferðir við að breyta ullarbandi og hrosshári í fallegt handverk. Siggi Björns. og Jói frá Stapa tóku nokkrar stemmur. Hið eina sem skyggði á gleði dagsins var örtröð sem myndaðist í Áskaffi og er vonandi að þeir sem frá þurftu að hverfa komi sem fyrst aftur á venjulegum degi og eigi góða stund þar.

 Fleiri myndir frá safnadeginu má sjá hér

Fleiri fréttir