„Ég er ánægð að hafa upplifað ár sem var fullt af fallegum atburðum“ | KATRĪNA GEKA

Fjölskylda Katrínu í jólaskapi. AÐSEND MYND
Fjölskylda Katrínu í jólaskapi. AÐSEND MYND

Síðasti nýbúinn sem Feykir ræðir við um jólin og árið sem er að líða er Katrīna Geka. „Ég gegni mörgum hlutverkum í lífinu, þar á meðal móðir fallegs drengs, eiginkona yndislegs manns og sjálfstætt starfandi lífsstílsblaðamaður. Ég og fjölskylda mín búum nú á Sauðárkróki,“ segir Katrīna hún er gift David Geks körfuboltamanni með liði Tindastóls en hann varð einmitt íslenskur ríkisborgari á árinu.

Hvar er heima? „Ég er upphaflega frá Ríga, höfuðborg lítils lands í Evrópu sem kallast Lettland. Ríga, sem er stærsta borg landsins, er mjög lífleg og fjölbreytt – allt frá fólki til byggingarlistar, kennileita og afþreyingar. Ég hef búið í Ríga mestan hluta ævi minnar svo borgin á sérstakan stað í hjarta mínu. En aðallega vegna þess að margir af ástvinum mínum búa þar.“

Hvar heldur þú jólin? „Í ár mun ég eyða jólunum hér á Sauðárkróki með fjölskyldunni minni, því vegna ákveðinna aðstæðna var ekki möguleiki að fara til Ríga. Við vorum líka að skoða möguleikann á að fara eitthvað til útlanda, en ég komst að þeirri niðurstöðu að á þessum tíma vil ég finna fyrir algjörum friði og eini staðurinn fyrir hann er heima – í stofunni minni, með fallega skreytt jólatré og heimalagaðan mat. Fyrir mér eru jólin tími þegar öll fjölskyldan kemur saman, það hefur verið þannig nánast á hverju ári, svo það er svolítið dapurlegt að vera svona langt frá þeim. En þökk sé nútímatækni munum við geta verið í sambandi þessa daga.“

Hvaða jólahefð er ómissandi? „Á hverju ári um jólin skreytum við húsið okkar og setjum upp jólatré – náttúrulegt, ekki gervi. Ef tækifæri gefst förum við í kirkju og borðum kvöldmat á eftir. Við syngjum Silent Night [Heims um ból] og lesum ljóð og á eftir geta allir valið sér pakka undir jólatrénu. Ég held að það sé engin ein rétt hefð, það er bara hvernig þú og þín fjölskylda viljið hafa hlutina.“

Hvað er í matinn á jólunum? „Á jólunum borðar fjölskylda mín venjulega hefðbundinn lettneskan rétt – gráar baunir. Þetta er ekki klassískur jólamatur en við er hrifin af honum og njótum hans í botn. Svo höfum við heimabakaðar bökur, mismunandi salöt og kræsingar – eitthvað sem við borðum ekki daglega. Þegar kemur að eftirréttum er pláss fyrir nýjar uppskriftir á hverju ári. Í ár, til að gleðja son minn, verður það heimagerður ís með berjum.“

Hvað var það besta sem gerðist hjá þér á árinu? „Ég ætla ekki að vera frumleg og segi bara að ég er þakklát fyrir allar upplifanir ársins og sérstaklega að ástvinir mínir voru við góða heilsu á árinu. Ég þarf ekki miklar upplyftingar því á eftir þeim koma oftar en ekki mjög erfiðar lægðir. Ég er ánægð að hafa upplifað ár sem var fullt af fallegum atburðum – eins og brúðkaupi besta vinar míns, 30 ára afmæli mínu o.s.frv. – og breytingum í lífi mínu sem ýttu mér út fyrir þægindarammann.“

Er einhver íslensk jólahefð sem þér finnst skrýtin? „Ég held að það séu engar skrýtnar hefðir, því hver þjóð og hvert land hefur sinn einstaka lífshátt. Ég lít á þá hluti með mikilli virðingu. Þökk sé vinum okkar þá gat ég tekið þátt í Laufabrauðsbaksturshefðinni þeirra sem mér fannst mjög yndæl og laufabrauðið bragðgott að auki. Að mínu mati er ein áhugaverðasta jólasagan á Íslandi um Jólasveinana í Dimmuborgum – eitthvað sem ég hef ekki heyrt neins staðar áður.“

Hverju vildu henda á brennuna? „Ég myndi henda öllum efasemdum sem ég hef haft um sjálfa mig á þessu ári. Árið 2025 lærði ég að allt gerist af ástæðu. Reyndu að gera það besta úr aðstæðum sem þú lendir í og ​​festast ekki í neikvæðum hugsunum.“

Fleiri fréttir