Eineltisáætlun Grunnskólans austan Vatna samþykkt
![]() |
|||||||||||||||
Á heimasíðu skólans segir; „Allt starfsfólks skólans tekur virkan þátt í baráttunni gegn einelti en umsjónarkennarar gegna þar lykilhlutverki. Ef grunur um einelti vaknar ber að láta umsjónarkennara viðkomandi barns vita, hans hlutverk er að fylgja málinu eftir. Starfsfólk skólans leggur sig fram um að leysa úr þeim málum sem upp geta komið á eins farsælan hátt og kostur er. Við leggjum mikla áherslu á forvarnarstarf sem miðar að því að fyrirbyggja einelti, og nýtum m.a. bekkjarfundi reglulega til þeirrar vinnu. Við leggjum áherslu á að allt starfsfólk, nemendur og foreldrar séu vel upplýstir og virkir í eineltisáætluninni og taki virka afstöðu gegn einelti. Það er einlægur vilji okkar að Grunnskólinn austan Vatna sé vinnustaður þar sem öllum getur liðið vel í öruggu skólaumhverfi.
Hvað er einelti? Samkvæmt skilgreiningu Olweusar og annarra norrænna fræðimanna er einstaklingur lagður í einelti, ef hann eða hún verður fyrir neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil. „Það er neikvæður og/eða ofbeldiskenndur verknaður ef einhver veldur öðrum viljandi tjóni eða óþægindum - með líkamlegri snertingu, í orði eða á annan hátt. Við tölum ekki um einelti nema þessu til viðbótar sé um að ræða aflsmun, þegar sá sem verður fyrir þessum neikvæða verknaði á erfitt með að verja sig og er harla varnarlaus gagnvart þeim (einum eða fleiri), sem angrar hann eða hana. Þrennt einkennir eineltishugtakið, samkvæmt ofangreindri skilgreiningu: • Árásarhneigt (ýgt) eða illa meint atferli. • Um er að ræða endurtekningu sem stendur yfir ákveðinn tíma. • Ójafnvægi afls og valda í samskiptum. " (Úr handbók um Olweusaráætlunina, útg. 2005, bls. 28).
Stýrihópur Olweusaráætlunin gerir ráð fyrir stýrihópi í hverjum skóla. Í Grunnskólanum austan Vatna skipa þrír lykilmenn, þrír skólastjórnendur auk verkefnastjóra þennan stýrihóp, alls 7 starfsmenn. Hlutverk stýrihóps er að hafa samráð um framkvæmd áætlunarinnar og að tryggja gæði hennar. Stýrihópur endurskoðar eineltisáætlun skólans eftir því sem þörf er á, árlega að öllu jöfnu. Einn lykilmaður er frá hverri starfsstöð, þ.e. einn frá Hofsósi, einn frá Sólgörðum og einn frá Hólum. Lykilmenn hafa því hlutverki að gegna að stýra umræðum á fundum starfsfólks og hafa samráð um fræðslu fyrir starfsmenn. Þeir hafa umsjón með að áætlunin sé virk á hverri starfsstöð. Þeir veita starfsfólki skólans ráðgjöf og aðstoð eftir þörfum. Verkefnastjóri: Helga Harðardóttir, kennsluráðgjafi Grunnskóla Skagafjarðar helgah@arskoli.is Hofsós: Jón Hilmarsson, skólastjóri jon@gsh.is. Kristín Bjarnadóttir, lykilmaður kristin@gsh.is Hólar: Jóhann Bjarnason, aðstoðarskólastjóri johann@gsh.is Björg Baldursdóttir, lykilmaður bjorg@gsh.is Sólgarðar: Guðrún Hanna Halldórsdóttir, deildarstjóri gudrun@gsh.is Arnþrúður Heimisdóttir, lykilmaður arnthrudur@gsh.is Markmið Markmið okkar er að uppræta einelti í Grunnskólanum austan Vatna með fræðslu og vitundarvakningu meðal skólasamfélagsins alls, þ.e. nemenda, starfsfólks og foreldra. Að allt skólasamfélagið taki virka afstöðu gegn einelti. Forvarnir og fræðsla Nemendur Fræðsla um einelti og forvarnir gegn því heyra undir lífsleiknikennsluna, en skulu ávallt höfð í huga við allt starf með nemendum. Þó umsjónarkennarar gegni hér lykilhlutverki, bera aðrir kennarar sem og starfsfólk allt sameiginlega ábyrgð á eftirfylgni og framkvæmd eineltisáætlunarinnar. Brýnt skal fyrir nemendum að láta umsjónarkennara vita eða annan fullorðinn einstakling, ef grunur um einelti kemur upp. Reglur gegn einelti skulu ræddar í hverjum bekk/námshópi að hausti og veggspjald með þeim endurnýjað af nemendum sjálfum. Veggspjaldið skal hanga uppi í kennslustofu og þannig handhægt að vísa í það, þegar aðstæður kalla á. Eineltisskeifan skal sömuleiðis hanga uppi í hverri stofu og um hana skal fjallað og til hennar gripið á sama hátt. Áhersla skal lögð á samábyrgð allra. Bekkjarfundir skulu haldnir hálfsmánaðarlega hið minnsta, í öllum bekkjum/námshópum. Lengd fundanna fer eftir aldri og þroska nemenda og öðrum aðstæðum. Nýta skal það fræðsluefni, sem fyrir hendi er, sbr. kennsluáætlanir í lífsleikni. Einnig er gert ráð fyrir því að nota myndbönd um einelti sem kveikju að umræðum um einelti og forvarnir gegn því á bekkjarfundum . Starfsfólk Halda skal umræðu- og fræðslufundi meðal starfsmanna, samkvæmt sérstakri áætlun. Hin fjölmörgu birtingarform eineltis skulu rifjuð upp og rædd a.m.k. einu sinni á ári, á fyrsta almenna umræðufundi vetrarins (sbr. kafla 3 í starfsmannahandbók). Minnt skal á að öllum starfsmönnum ber skylda til að láta umsjónarkennara vita, ef grunur um einelti kemur upp. Á hverju hausti skal halda námskeið um þessi mál með öllum nýjum starfsmönnum. Nýir starfsmenn fá eintak af starfsmannahandbók Olweusaráætlunarinnar. Skólastjóri kynnir eineltisáætlun skólans á fyrsta starfsmannafundi ár hvert.
Foreldrar Eineltisáætlun skólans skal kynnt fyrir foreldrum á kynningarfundum á haustin. Brýnt skal fyrir foreldrum að láta umsjónarkennara vita, ef grunur um einelti kemur upp og höfða til samábyrgðar allra í skólasamfélaginu. Allir nýir foreldrar skulu fá upplýsingar um fræðsluefni í áætluninni en sérstakan foreldrabækling má nálgast á heimasíðunni olweus.is. Foreldrabæklingur http://www.olweus.is/Einelti.pdf
Eftirlitskerfið Eineltiskönnun Olweusar er lögð fyrir nemendur í 4. - 10. bekk í nóvember ár hvert. Þessi könnun er afar ítarleg og spurt er út í einelti og skylda hluti frá ýmsum hliðum. Unnið er úr svörunum í Olweusarmiðstöðinni í Bergen og liggja niðurstöður að öllu jöfnu fyrir í janúar. Spurningar um einelti og líðan nemenda koma einnig fyrir í árlegri viðhorfakönnun meðal nemenda í 5.-10. bekk í Grunnskólanum austan Vatna. Öllum starfsmönnum, nemendum og foreldrum ber skylda til að láta umsjónarkennara vita, ef grunur um einelti kemur upp.
Viðbrögð Umsjónarkennarinn er lykilaðili í öllum eineltismálum. Honum ber skylda til að fylgja öllum ábendingum um einelti eftir og er sérstaklega bent á kafla 9 í starfsmannahandbók Olweusar um aðferðir. Umsjónarkennari getur leitað leiðbeininga hjá öðrum, svo sem skólastjórnendum, lykilmönnum eða verkefnastjóra, en getur ekki vísað slíkum málum frá sér til annarra, nema sérstakar aðstæður bjóði. Á sama hátt geta aðrir starfsmenn ekki hlutast til um einstök eineltismál án vitundar eða samstarfs við viðkomandi umsjónarkennara, nema aðstæður krefjist þess og þá í samráði við skólastjórnendur. Umsjónarkennara ber, eftir því sem unnt er, að hafa samstarf við foreldra/forsjáraðila, ef grunur virðist á rökum reistur. Umsjónarkennarar skulu hafa samráð og samstarf um lausn einstakra mála, ef þau tengjast nemendum í fleiri en einum bekk. Einstök mál geta krafist skráningar á atvikum, t.d. í frímínútum. Nota skal sérstakar skráningarbækur eða eyðublöð vegna þeirra. Öll slík gögn ber að meðhöndla sem trúnaðarmál. Umsjónarkennara ber að skrá öll eineltismál, sem upp koma, og ferlið við að leysa þau. Útfyllt eyðublöð skal geyma í sérstakri möppu hjá skólastjóra. Ef ekki tekst að leiða mál til lykta, ber að vísa þeim til nemendaverndarráðs. Þá skulu áðurnefnd gögn fylgja þeirri tilvísun. Sjá nánar viðauka 1 og 2. Ábyrgð og aðkoma skólastjórnenda og annarra Skólastjóri ber endanlega ábyrgð á öllu starfi innan skólans. Skólastjórnendum ber, eins og öllum öðrum starfsmönnum skólans, að vísa eineltismálum til umsjónarkennara og skulu ekki blanda sér í einstök tilvik án samráðs við hann, nema aðstæður beinlínis krefjist þess. Slíkar aðstæður væru t.d. ef málið tengdist umsjónarkennara persónulega. Skólastjórnendum ber að vera umsjónarkennurum, sem og öðrum í skólasamfélaginu, til leiðbeiningar um eineltismál, sé til þeirra leitað.
|