Enn eitt riðutilfellið í Skagafirði
Riðuveiki hefur verið staðfest á bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Um 1500 fjár eru á bænum, fullorðið fé og lömb. Þetta kemur fram á heimasíðu Matvælastofnunar.
Syðra-Skörðugil er í Húna- og Skagahólfi en í því hólfi greindist síðast riða á einum bæ árið 2020 og segir á Mast.is að riðuveiki hafi komið upp á Syðra-Skörðugili einu sinni áður, fyrir 30 árum eða árið 1991.
Á síðasta ári greindist riða á fimm bæjum í austanverðum Skagafirði, sem tilheyra Tröllaskagahólfi. Sömuleiðis á einum bæ á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Matvælastofnun vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga til að meta umfang smitsins og nauðsynlegar aðgerðir.
Fram kemur í frétt Mast að aukin sýnataka sé fyrirhuguð á Norðurlandi vestra nú í haust og mjög mikilvægt að bændur láti héraðsdýralækni vita af fé sem drepst eða er lógað heima vegna vanþrifa, slysa eða sjúkdóma svo hægt sé að nálgast sýni úr þeim. Einnig er mikilvægt að fá sýni úr heimaslátrun.
„Til mikils er að vinna að koma böndum á riðu á svæðinu og reyna að útrýma henni,“ segir í frétt Matvælastofnunar.