Eva Rún mjög spennt fyrir sumrinu með U20

Eva Rún Dagsdóttir. MYND: DAVÍÐ MÁR
Eva Rún Dagsdóttir. MYND: DAVÍÐ MÁR

U20 landslið kvenna í körfubolta tekur þátt í tveimur mótum í sumar, fyrst Norðurlandamótinu í lok júní og Evrópumóti í lok júlí. Sautján stúlkur voru í gær valdar í leikmannahópinn íslenska og tvær þeirra hafa komið upp í gegnum unglingastarf Tindastóls. Það eru þær Eva Rún Dagsdóttir og Marín Lind Ágústsdóttir sem voru valdar í æfingahópinn en síðan verða 12 leikmenn valdir úr til að keppa á NM og EM. Þær sem ekki komast í lokahópinn verða þó áfram í æfingahópnum og klárar í slaginn ef upp koma meiðsli.

Feykir hafði samband við Evu Rún en hún og Marín Lind hafa lengi verið viðriðnar yngri landslið Íslands. Marín Lind spilar sinn körfubolta í Arizona þessi misserin en Eva Rún er fyrirliði Tindastóls. Lið Stólastúlkna var ekki að brillera í vetur, endaði næstneðst í 1. deildinni, og því mögulega í lagi að spyrja Evu hvort það hafi komið henni á óvart að vera valin í landsliðshópinn. „Nei, það kom mér svo sem ekkert mjög á óvart að vera í æfingahópnum en að vera í loka 17 manna æfingahópnum er bara geggjað,“ segir Eva,

Er þetta skemmtilegur hópur? „Já. þetta er skemmtilegur hópur, allt mjög efnilegar stelpur sem gefa manni mikla samkeppni. Við höfum flestar æft saman áður í gegnum landsliðin og/eða spilað á móti hvor annarri.“

Hvað finnst þér um verkefnið? „Þetta verkefni er mjög spennandi og alltaf gott að fá þessa viðurkenningu fyrir vinnuna sem maður hefur lagt á sig. Fyrst og fremst finnst mér þetta frábært tækifæri til þess að bæta sig sem leikmaður, hvort sem maður fer út að spila með liðinu eða æfir á fullu sem varamaður. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni,“ segir Eva.

Þjálfari U20 liðsins er Halldór Karl Þórsson en aðstoðarþjálfarar eru Bryndís Gunnlaugsdóttir og Hallgrímur Brynjólfsson. Þá má geta þess að ein stúlka til viðbótar sem hefur spilað með liði Tindastóls er í hópnum en það er Eva Wium Elíasdóttir frá Akureyri.

Feykir óskar stelpunum til hamingju með heiðurinn.

- - - - - -
Frétt um valið á síðu KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir