Feykir-TV fer í loftið
Unnið er að því að koma Feykir-TV í loftið þar sem sýndir verða þættir um mannlíf og menningu svæðisins og fjallað um það sem helst er að gerast. Það er Stefán Friðrik Friðriksson sem sér um upptökur og klippingu.
Feykir-TV er tilraunaverkefni sem starfrækt verður fram að áramótum en ef vel tekst til mun það væntanlega halda áfram.
-Stefán Friðrik sem er menntaður kvikmyndagerðarmaður segir að hann hafi haft þá hugmynd lengi í maganum að vera með litla vídjó fréttastofu. Hann fór að spjalla við vini og kunningja, brottflutta Skagfirðinga og heimafólk og fann að góður hljómgrunnur var fyrir hugmyndinni. –Þá var næsta skref að tala við Feyki og þar var hugmyndinni vel tekið, enda mikilvæg viðbót í menningar- og mannlíf íbúa svæðisins, segir Stefán Friðrik.
Fyrsta efnið mun koma á vefinn innan skamms og verður gaman að sjá hvernig til tekst og hvort framhald verði á.