Fjárgötur myndanna – Hörður Ingimarsson skrifar

Fótboltalið UMSS á Dalvík. Myndin tekin við Volvorútuna K 330.
Efri röð: Jón Sigurðsson Sleitustöðum, Sævar Guðmundsson Efra Ási, Ingólfur Kristjánsson Hólum, Lúðvíg Halldórsson, Gunnar Flóventsson.
Miðröð: Þorvaldur G. Óskarsson Sleitustöðum, Sigmundur Pálsson og Stefán Guðmundsson.
Neðst: Kolbeinn Pálsson, Ástvaldur Guðmundsson, Trausti Pálsson Laufskálum. Eigandi myndar: Þorvaldur G. Óskarsson
Fótboltalið UMSS á Dalvík. Myndin tekin við Volvorútuna K 330. Efri röð: Jón Sigurðsson Sleitustöðum, Sævar Guðmundsson Efra Ási, Ingólfur Kristjánsson Hólum, Lúðvíg Halldórsson, Gunnar Flóventsson. Miðröð: Þorvaldur G. Óskarsson Sleitustöðum, Sigmundur Pálsson og Stefán Guðmundsson. Neðst: Kolbeinn Pálsson, Ástvaldur Guðmundsson, Trausti Pálsson Laufskálum. Eigandi myndar: Þorvaldur G. Óskarsson

Eitt leiðir af öðru. Á liðinni öld eru víða fjölmargar myndir sem varða leiðina og auðvelda okkur að lesa í sögu liðins tíma. Eftir miðja 20. öldina tók almenningur að taka myndir að marki á gömlu filmuvélarnar í svarthvítu. Flestir viðburðir urðu að myndefni. „Bílaútgerð Sleitustaðamanna“, snilldarþáttur Sigtryggs Björnssonar frá Framnesi í Skagfirðingabók sem út kom snemma í vor leiddi okkur Þorvald G. Óskarsson í myndaleit að „fornum“ knattspyrnuhetjum upp úr miðri síðustu öld. 

Leiðandi menn
Árið 1956 varð fengsælt. Athafnamennirnir Búddi, Gísli Sigurðsson, og Siggi Siff, á hátindi síns ferils. Doddi í Stóragerði enn í mjólkinni og vörubílabransanum og engan mann gat grunað að Doddi ætti eftir að verða frumkvöðull að því snilldarframtaki að byggja 50 íbúðir á Króknum. Ragnar Pálsson frá Þrastarstöðum orðinn leiðandi í Sparisjónum síðar Búnaðarbanka. Allir voru þessir menn úr Kolbeinsdal, Óslandshlíð og Höfðaströnd. Aldeilis mannval út að austan sem lögðu að stórum hluta grunn að því samfélagi sem við þekkjum í Skagafirði í dag. 

Volvo K 330 frambyggður talin flottasta rúta landsins 1956. Eigandi myndar: Sigurður Björnsson

Volvo K 330 frambyggður talin flottasta rúta landsins 1956.
Eigandi myndar: Sigurður Björnsson

Sagan af K 330
Það var með ólíkindum hvernig Sleitustaðamenn byggðu upp öflugt rútufyrirtæki og það á landsmælikvarða í sveit neðst í Kolbeinsdal. Kaupin á nýjum Volvo fyrstu frambyggðu rútunni frá Svíþjóð 1956 af flottustu gerð með harðviðarinnréttingum og gardínum, mun hafa kostað um 500 þúsund krónur en góður vörubíll kostaði þá um 100 þúsund krónur. Volvoinn kom með skipi til Reykjavíkur þar sem Búddi og Þorvaldur G. Óskarsson tóku á móti rútunni sem fékk skráningarnúmerið K 330. Öflugur verkstæðisrekstur á Sleitustöðum undir stjórn Þorvaldar gerði kleift að stunda rútuútgerðina með svo farsælum hætti sem raun varð á. Árið 1964 var skipt á Volvonum við Norðurleið hf. og hann varð R 4718. Sleitustaðamenn keyptu rútuna síðan aftur af Norðurleið þá með breyttu húsi. Enn var Volvoinn seldur 1. nóvember 1973 Ævari Klemenssyni á Dalvík, ættaður frá Bólstaðarhlíð og í móðurættina frá Kjartansstöðum á Langholti. Ævar ók skagfirskum konum vítt og breitt um Ísland á þessari margfrægu rútu við miklar vinsældir. Þessi flottasta rúta landsins endaði sem vinnuskúr hjá Byggingafélaginu Kötlu og síðan sem brotajárn, en sagan lifir.

Ungmennasambandið
Á þessu herrans ári 1956 var UMSS mjög öflugt með 605 félaga í árslok í 12 sambandsfélögum, fylgdi hreppamörkum. Guðjón Ingimundarson kennari var formaður UMSS mikill leiðtogi en sundið var hans hjartans mál og frjálsar íþróttir. Umf. Hjalti (Hjaltadal) var mjög öflugt á þessum árum. Þeir unnu 17. júnímótið á Sauðárkróksvelli í frjálsum með 89 stigum og hlutu K.A.S.H. bikarinn í 3. sinn. Kristján Jóhannsson margfaldur Íslandsmeistari í langhlaupum þjálfaði Hjalta. Kristján var ættaður úr Svarfaðardal átti fyrir bróðir Sigurjón sem var ritstjóri Verkamannsins á Akureyri. Liðsmenn Hjalta voru m.a. Páll í Smiðsgerði, Sigurður Sigurðsson Sleitustöðum, Garðar í Ási, Þorvaldur G., Sævar Guðmundsson Efra-Ási o.fl. Hjalti og Tindastóll skildu jöfn í fótboltanum. Hjaltamenn voru mjög öflugir á þessum árum.

Eins var um Fljótamenn, þrælsterkir. Tindastólsmenn að læra á nýja vellinum á Króknum eftir margfrægan „Eyrarbolta“ á Eyrinni. Þetta ár 1956 8. júlí vann Jón S. Helgason, Nonni Helga, Grettisbikarinn á héraðsmóti í sundi í Varmahlíð en árið eftir 11. júní 1957 var vígð ný sundlaug á Króknum. Svo skemmtilega vill til að fyrstu framkvæmdir voru ýtuvinna við sundlaugina sem hófst 22.-23. júní 1954 og voru þar Sigtryggur Björnsson frá Framnesi og Stefán Guðmundsson í Ríkinu, (hennar Grétu) sem voru ýtustjórar.

Jón Sigurðsson „Jón Sleitó“ á Sauðárkróksvelli í september 2016. Mynd: H Ing

Jón Sigurðsson „Jón Sleitó“
á Sauðárkróksvelli í september 2016.
Mynd: H Ing

UMSS á Dalvík 
Þessi grein átti nú aldrei að verða annað en frásögn af gömlum knattspyrnuhetjum UMSS á Dalvík myndaðir við flottustu rútu Íslands Volvoinn K 330. Jón Sigurðsson „Nonni Sleitó“ var formaður knattspyrnuráðs á þessum tíma og hefur efalaust átt stóran þátt í því að „landslið Skagafjarðar“ fékk flottustu rútuna undir rassinn á „landsleikinn á Dalvík“. Það sem verra er enginn veit hvernig leikurinn fór, enda breytir það engu. Jón Sigurðsson var á nýja gervigrasvellinum um daginn og sá dótturson sinn Braga Skúlason og félaga vinna 12-2 sameiginlegt lið utan úr Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík. Kannski er nýtt spútniklið að vaxa úr grasi í Skagafirðinum. Það sem meira er „Nonni Sleitó“ varð 90 ára á dögunum eldsprækur sem varla sjötugur maður í útliti. Knattspyrnuáhuginn hefur fylgt honum alla tíð.

Liðið sem keppti á Dalvík var vel mannað hraustir einstaklingar. Jón Sig. eldsnöggur og fljótur. Sævar fjölhæfur í frjálsum og knattspyrnu flutti á Akranes í ársbyrjun 1957 og stundaði sjóinn keppti ekki á Skaganum. Ingólfur á Hólum fæddur snilldar knattspyrnumaður með alla líkamlega hæfileika til atvinnumanns. Lúlli, alhliða íþróttamaður, lengi skólastjóri í Stykkishólmi. Gunnar Flóvents mjög traustur lengi langferðabílstjóri. Þorvaldur gríðarlega sprettharður og sterkur, leiðtogi Heimis á miklum uppgangsárum karlakórsins. Simmi Páls ótrúlega mjúkur og fjaðrandi þó skrokkmikill, frábær varnarmaður. Bróðir hans Sigtryggur Pálsson, Tryggvi Páls, hafði leikið í marki hjá Tindastóli leiðtogi hjá Stólunum en heilsuleysi farið að hrjá hann er Ástvaldur tók við í markinu.

Tryggvi hafði forystu um skógrækt m.a. í Grænuklauf hann lést langt um aldur fram. Stefán Guðmundsson baráttuglaður og þrekmikill seinna á Alþingi. Kolbeinn þrælsterkur góður í frjálsum bróðir Hauks í samlaginu og Harðar bakarameistara á Akranesi. Ástvaldur kominn í markið 14 ára, 15 ára um haustið lék í marki í a.m.k. í þrjú ár síðar afburða varnarmaður sem sagt hefur verið frá í Feyki. Trausti Pálsson Laufskálum var mjög öflugur varnarmaður og var einn af burðarstólpum Hjalta.

Allir voru þessir menn öflugir til líkama og sálar. „Nonni Sleitó“ Sævar frá Efra Ási Þorvaldur á Sleitustöðum og Itti, Ástvaldur Guðmundsson eiga sinn skerf að þeim mannlýsingum sem fram koma í þessum skrifum.

Hörður Ingimarsson

Áður birst í 22. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir