Flytur inn vín frá Moldóvu - Hreifst af bæði vínum og ekki síður landi og þjóð
Fyrr í sumar fór fram vínkynning á Sauðá fyrir veitingaaðila í Skagafirði. Kynnt voru vín af tegundinni Radacini sem er einn stærsti vínframleiðandinn í Moldóvu.
Ágúst Andrésson stóð fyrir kynningunni ásamt Jóni Daníel Jónssyni og Dinu Cristian sem er sölustjóri Radacini og jafnframt ræðismaður Íslands í Moldóvu og hefur mikinn áhuga á því að kynna tækifæri fyrir Íslendinga þar í landi. Ágúst hefur flutt inn vín frá Radacini í gegnum fyrirtæki sitt, Norðar ehf., frá árinu 2019.
Að sögn Ágústs er mikill áhugi fyrir þessum fjölbreyttu vínum en þau þykja afar góð og á góðu verði. Samskonar vínkynning fór einnig fram í Reykjavík og í Bláa lóninu.
Feykir hafði samband við Ágúst og fræddist um innflutning hans á vínum og hvernig það kom til að hann fór að flytja inn vín frá Moldóvu.
„Ég kynntist Radacini framleiðandanum á sýningu í Moskvu 2019. Við vorum á þeirri sýningu með bás og vorum að kynna skyr og lamb. Jón Dan var með mér og við fórum hring um sýninguna og rákumst á nokkra áhugaverða bása og þar á meðal Radacini. Við hrifumst af þeirri kynningu sem við fengum á bæði vínum og ekki síður landi og þjóð, en Moldóva er spennandi land. Ég hef komið til Moldóvu einu sinni og var viðstaddur innsetningu Dinu í embættið og heimsótti þá Radacini. Í Moldóvu er stærsti vínkjallari í heimi samkvæmt heimsmetabók Guinness og mikil vínmenning, og þarna eru haldnar miklar hátíðir tengdar því.
Ágúst segir að Moldóva sé einn stærsti vínframleiðandi í heimi og að þar séu framleidd góð vín á góðu verði. „Vín frá Austur-Evrópu hafa verið að sækja í sig veðrið og ég spái því að þau séu að taka við sem „nýja heims vín“. Þeir eru að vinna með nokkrar þrúgur sem einkenna þeirra land, eins og Viorica og Feteasca, og svo framleiða þeir hvítvín úr rauðvínsþrúgu sem er sérstakt. Það er vín sem við höfum selt talsvert af til veitingahúsa í Skagafirði og heitir Blanc de Cabernet. Auk þessa eru þeir með allar vinsælu Evrópu þrúgurnar. Þannig að þetta er mjög fjölbreytt.
Flytur inn vín frá búgörðum í eigu stórsöngvara
Fyrirtækið hans, Norðar ehf., átti Hótel Tindastól á árunum 2005 til 2012 og hefur hann haldið í það síðan og notað í ýmis verkefni. „Við byrjuðum að flytja inn vín frá Moldóvu 2019. En áður hafði ég flutt inn vín frá Spáni 2011 sem seld voru á Hótelinu. Auk þess erum við með umboð fyrir ítölsk vín frá Bocelli vínbúgarðinum sem er í eigu fjölskyldu stórtenórsins Andrea Bocelli. Svo erum við að skoða umboð fyrir bjór, Vodka og Cognac framleiðendur. Við erum líka með í innflutningi á vínum sem framleidd eru einnig á Ítalíu á búgarði sem er í eigu breska tónlistarmannsins Sting.“
Á árinu lætur Ágúst af störfum sem forstöðumaður kjötafurðarsviðs Kaupfélags Skagfirðinga, en hann hefur starfað í 27 ár fyrir félagið. Aðspurður hvort hann sjái fram á að einbeita sér meira að innflutningi vína segir Ágúst: „Já alveg örugglega verður það, ásamt einhverju öðru. Reglur um sölu áfengis eru að breytast, það getur opnað á ný tækifæri.“
Frá vínkynningunni á Sauðá. Ágúst Andrésson, Jón Daníel Jónsson og Dinu Cristian stóðu fyrir kynningunni og standa við enda borðsins. Mynd: PF
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.