Framkvæmdir við leikskólalóð á Hofsósi hafa tafist fram úr hófi en senn líður að flutningum Tröllaborgar

Nýtt húsnæði leikskólans Tröllaborgar á Hofsósi hefur verið tilbúið í nokkurn tíma en ekki hefur tekist að klára lóðaframkvæmdir. Engin tilboð bárust í verkið þegar það var boðið út fyrr á árinu og tafði ferlið. Vegna þessa hefur starfsemi skólans ekki verið flutt úr bráðabirgðahúsnæði sem skólinn flutti inn í eftir að mygla fannst í fyrra húsnæði árið 2016.
Að sögn Sigfúsar Inga Sigfússonar, sveitarstjóra Svf. Skagafjarðar, er helsta skýring á þeirri töf sem kemur í veg fyrir flutninginn, sú að skipulagning og hönnun á skólalóðinni dróst. „Ákvörðun um staðsetningu á fyrirhuguðu nýju íþróttahúsi, sem áform eru um að byggja við skólann, urðu til þess að aðkomu að leikskólanum var breytt. Þetta kallaði á breytingar á hönnun leikskólalóðarinnar ásamt breytingu á aðkomu að nýja leikskólanum sem seinkaði ferlinu. Þegar framkvæmdir við leikskólalóð voru svo boðnar út komu engin tilboð í verkið og seinkaði því enn þess vegna,“ segir Sigfús Ingi.
Verktakar hafa nú verið ráðnir til verksins og er vinna við lóðina þegar hafin og segir Sigfús Ingi að gert sé ráð fyrir að framkvæmdum við lóðina ljúki í endaðan október eða byrjun nóvember. „Þess má geta að mikið og gott samstarf hefur verið með tæknideild sveitarfélagsins og leikskólastjóra og skólastjóra GaV um verkefnið,“ segir Sigfús en verið er að ganga frá innanstokksmunum þannig að móttaka barnanna geti hafist.