Framleiða eigin vörulínu úr CBD - Hágæða olíur úr iðnaðarhampi

Ragnar Helgason og Erla Hrund Þórarinsdóttir eiga og reka fyrirtækið RÓ sem sem hannar, þróar og selur hágæða CBD olíur, unnar úr iðnaðarhampi. Aðsendar myndir.
Ragnar Helgason og Erla Hrund Þórarinsdóttir eiga og reka fyrirtækið RÓ sem sem hannar, þróar og selur hágæða CBD olíur, unnar úr iðnaðarhampi. Aðsendar myndir.

Í tillögum til þingsályktunar, sem Halldóra Mogensen fer fyrir á Alþingi, um aðgengi að vörum sem innihalda svokallað CBD kemur fram að iðnaðarhampur hafi mikið notagildi enda notaður í margar vörur en samhliða aukinni ræktun á iðnaðarhampi hefur orðið sprenging í eftirspurn eftir vörum sem nota afurðina. Má í því sambandi m.a. nefna heilsu- og snyrtivörur, alls kyns iðnaðar- og byggingarvörur, matvæli, fæðubótarefni, bílaframleiðslu og pappír svo eitthvað sé nefnt.

Úr jurtinni er hægt að vinna virka efnið cannabidiol sem skammstafað er CBD, en það hefur m.a. verið notað sem fæðubótarefni, í matvæli, snyrtivörur og sem lyf. Heilbrigðisráðherra var falið að láta fara fram könnun á því regluverki sem gildir um sölu og markaðssetningu á vörum sem innihalda CBD og í kjölfarið að leggja til breytingar sem eru nauðsynlegar til að auka aðgengi að vörum sem innihalda CBD.

Þann 16. janúar sl. svaraði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, fyrirspurn Halldóru Mogensen hvernig vinnu starfshóps ráðherra miði sem hefur það hlutverk að fjalla um CBD-olíu (cannabidiol) og nauðsynlegar breytingar á lögum um matvæli, lögum um ávana- og fíkniefni, og lyfjalögum, sem gera þarf til að framleiða og markaðssetja megi CBD-olíu hér á landi. Í svari hennar kemur fram að starfshópurinn hafi frá skipan fylgst náið með þróun mála er varða CBD á vettvangi Evrópusambandsins, þar sem til skoðunar er að fella CBD og aðra kannabínóíða sem unnir eru úr hampplöntum undir nýfæðislöggjöf ESB. Nýfæði er samheiti yfir matvæli sem ekki voru hefðbundin neysluvara í ríkjum Evrópusambandsins fyrir 15. maí 1997 þegar löggjöf þessi tók gildi og hefur hún verið tekin upp í EES-samninginn og innleidd hér á landi.

„Til að verja neytendur fyrir mögulega hættulegum áhrifum af matvælum, sem ekki hafa verið á markaði í Evrópu, þarf að sækja um leyfi til að setja þau á markað. Liður í því ferli er álit Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). Stofnunin er með 19 umsóknir vegna CBD til meðferðar og í júní sl. gaf stofnunin út yfirlýsingu þess efnis að enn skorti töluvert upp á ýmis gögn sem nauðsynleg eru til þess að meta öryggi CBD,“ segir m.a. í svari Svandísar en meðal þess sem ekki liggur fyrir eru áhrif CBD á lifur, meltingarveg, innkirtlakerfi og taugakerfi í mönnum.

Mörg lönd hafa þegar heimilað aukið aðgengi og aukna markaðssetningu á vörum sem innihalda CBD þegar THC-magn er innan marka og segir í þingsályktuninni sem áður er nefnd að eftirspurn eftir vörum sem innihalda CBD hér á landi sé nú þegar talsverð. Rétt þyki að bregðast við þeirri eftirspurn og heimila slíkt aðgengi, enda séu engin rök sem mæla gegn því. Efnið veldur engri vímu, það er ekki ávanabindandi og notkun þess getur verið til hagsbóta fyrir einstaklinga af ýmsum ástæðum. Í dag er CBD leyfilegt í snyrtivörum en ekki enn heimilt að selja það sem fæðubótaefni.

RÓ á Sauðárkróki

Á Sauðárkróki er starfrækt fyrirtækið RÓ sem hannar, þróar og selur hágæða CBD olíur en eigendur þess eru Ragnar Helgason og Erla Hrund Þórarinsdóttir. Á heimasíðu RÓ, rocbd.is, kemur fram að markmið Ragnars og Erlu sé að vera með góðar vörur, góða þjónustu, gott verð og geta sent fólki frítt hvert á land sem er og styðja þannig við val fólk á búsetu sem þá geta fengið vöruna á sama verði. Feykir hafði samband við Ragnar og forvitnaðist um fyrirtækið og afurð þess.

Ró - Full Spectrum 15% CBD olía

„Sagan er í raun og veru þannig að Erla hefur verið að slást við taugaverki og hefur verið að leita leiða til að minnka þá. Hún hefur prufað hitt og þetta, en ákvað svo að prufa CBD olíu. Olían virkaði vel til þess að taka toppinn af taugaverkjunum og hjálpaði henni mikið. Við fórum þá að skoða hvar við myndum finna bestu olíuna. Það endaði með því að við fórum að panta olíur alls staðar frá í heiminum til að prufa, bera sama og skoðuðum við því ýmsar olíur. Það endaði með því að finna vöru og framleiðanda sem við kunnum vel við. Við fórum þá að skoða þann möguleika á að geta boðið upp á þessar vörur á íslandi.

Sem þróaðist út í það að við stofnuðum Ró og eru olíurnar og vörurnar okkar framleiddar fyrir okkur og í takt við okkar kröfur og sérþarfir, ef einhverjar eru. Við erum að bjóða uppá góðar vörur á samkeppnishæfu verði og bjóðum við uppá fría sendingu hvert á land sem er. Við erum núna komin með þrjár olíur í sölu og erum við núna að prufa okkur áfram með fleiri olíur, bragð/lyktarefni, andlitskrem, vöðva og verkjakrem og margt fleira sem unnið er úr iðnaðarhampi. Við erum með þessar vörur núna í þróun og prófunum og vonumst við til að geta bætt við í vöruúrvalið okkar jafnt og þétt næstu mánuði.

Hvað er CBD og hvernig virkar það?
„CBD er náttúrulegur kannabíóði sem finnst í hampi og er aðallega unnið úr laufum og blómum iðnaðarhamps, CBD er einn af mörgum kannabíóðum sem finnst í plöntunni. Þessu er síðan blandað við MCT olíu sem er burðarolían í okkar vörum. Vörurnar eru 100% náttúrulegar og 100% vegan. CBD er talið hafa áhrif á miðtaugakerfið og getur haft róandi áhrif. Það hefur verið sýnt fram á í rannsóknum að CBD geti verið gagnlegt meðal annars við eftirfarandi eða einkennum þeirra: langvinnandi verkir, bólgur, liðagigt, kvíði, þunglyndi, svefnleysi og fleira.

Eru einhverjar aukaverkanir þekktar?

Ró - Broad spectrum 30% CBD olía

„Notkun á CBD veldur sjaldan aukaverkunum og hefur líkaminn almennt séð mjög mikið þol fyrir CBD. Það er þó ekki mælt með að nota CBD samhliða blóðþynnandi lyfjum. Við hvetjum fólk alltaf til að leita sér upplýsinga hjá heimilislækninum sínum ef það hefur áhyggjur af notkun CBD samhliða lyfjum.“

Hvernig kynntust þið CBD?
„Eins og kemur fram í textanum hér að ofan um hvernig við byrjuðum, þá var Erla að leita sér að einhverju til að aðstoða sig við að minnka taugaverki. Ákvað hún þá að prufa CBD olíu sem virkaði fyrir hana og fórum við þá í leit að olíu sem við gætum boðið upp á og verið sátt við. Móttökurnar hafa verið mjög góðar. Við erum að senda vörur út um allt land og er greinilegt eitthvað að spyrjast út varðandi gæða og virkni vörunnar. Bæði eru viðskiptavinir okkar fólk sem er að prufa CBD olíur í fyrsta skipti, ásamt fólki sem hefur notað CBD áður og hefur heyrt góða hluti um okkar vöru og er að færa sig yfir í Ró CBD.

Ró - Broad spectrum 30% CBD olía

Við höfum þá sérstöðu að vera, að mér vitandi, eina CBD varan sem bíður Full Spectrum (heilvirk) olía sem er með hámark af leyfilegu THC gildi í olíunni. Þegar CBD olíur eru Full Spectrum, þá þýðir það að iðnaðarhampurinn er unnin og öll innihaldsefni hans nýttur í olíuna, þar á meðal efnið THC. THC er leyfilegt upp að 0,2% í CBD snyrtivörum og er olían okkar unnin innan þess ramma. Á meðan aðrar olíur eru annaðhvort án THC eða með 0,05%. Þess má geta að olía með THC í þessu magni hefur engin ávanabindandi áhrif né möguleika á vímuáhrifum.“

Hvar eru olíurnar framleiddar?
„Iðnaðarhampurinn er ræktaður á Ítalíu og eru vörurnar síðan framleiddar í Slóvaníu. Allar vörurnar okkar fara í gegnum prófanir og eru gerðar rannsóknir fyrir hvern skammt sem við fáum síðan niðurstöður úr svo við getum fylgst með innihaldsefnum og stöðu vörunnar.“

Hægt er að fylgjast með og fræðast nánar um Ró CBD hjá þeim Ragnari og Erlu á samfélagsmiðlunum instagram og facebook undir Ró CBD (instagram.com/rocbd.is og facebook.com/rocbd.is), ásamt heimasíðunni www.rocbd.is þar sem meðal annars má finna meiri fróðleik og ummæli um vörurnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir