Fréttatilkynning frá Framsókn og Sjálfstæðisflokki í Skagafirði :: Meirihlutaviðræður ganga vel
Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa myndað meirihluta í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá árinu 2014 til 2022. Hefur samstarfið gengið vel í þau átta ár sem flokkarnir hafa starfað saman og rekstur sveitarfélagsins verið góður þrátt fyrir mestu framkvæmdaár í sögu sveitarfélagsins.
Með hliðsjón af niðurstöðum nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga og góðu samstarfi liðinna ára ákváðu flokkarnir að setjast niður og ræða myndun á nýjum meirihluta fyrir kjörtímabilið 2022–2026. Þær viðræður hafa nú staðið yfir í nokkurn tíma og ganga vel, en niðurstöðu og kynningu á meirihlutasamkomulagi er að vænta á allra næstu dögum.
Of langt mál væri að telja upp allt sem gert hefur verið frá því þessir flokkar hófu samstarf en hér er listi yfir nokkur atriði sem framkvæmd hafa verið á síðustu tveimur kjörtímabilum.
- Ákvörðun tekin um endurbyggingu Sundlaugar Sauðárkróks. Fyrri áfanga lokið og framkvæmd seinni áfanga vel á veg komin.
- Ákveðið að sameina leik-, grunn- og tónlistarskóla í Varmahlíð á einum stað og undirbúningur að framkvæmdum hafinn.
- Byggður nýr leikskóli með glæsilegu útisvæði á Hofsósi og nýr körfuboltavöllur á leiðinni. Hönnun íþróttahúss í vinnslu.
- Byggður glæsilegur, upphitaður gervigrasvöllur á Sauðárkróki og önnur íþróttaaðstaða bætt.
- Keyptur nýr dráttarbátur fyrir Sauðárkrókshöfn sem stórbætir þjónustu og vaxtarmöguleika hafnarinnar.
- Endurbætur á Safnahúsi Skagfirðinga. Framundan eru frekari endurbætur núverandi byggingar og framkvæmdir við nýja viðbyggingu sem saman mynda nýtt menningarhús á Sauðárkróki.
- Nýju aðalskipulagi fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð sem gildir til 2035 lokið.
- Víðtæk hitaveituvæðing í dreifbýli Skagafjarðar.
- Byggð ný sorpmóttökustöð í Varmahlíð.
- Uppbygging landsmótssvæðis hestamanna á Hólum í Hjaltadal.
- Hvatapeningar til stuðnings skipulögðu íþrótta-, lista- og æskulýðsstarfi hækkaðir verulega úr 8.000 krónum í 40.000 krónur.
- Rennibraut byggð við sundlaugina í Varmahlíð og körfuboltavöllur settur upp við Varmahlíðarskóla.
- Stofnframlög veitt til uppbyggingar leiguíbúða á Sauðárkróki.
- Undirbúningur hafinn fyrir breytingar á Sólgarðaskóla í leiguíbúðir.
- Lagning ljósleiðara um dreifbýli Skagafjarðar.
- Áframhaldandi uppbygging skíðasvæðisins í Tindastóli, m.a. kaup á nýrri lyftu og nýjum snjótroðara.
- Með leikskólaframkvæmdum í Hofsósi, Varmahlíð og á Sauðárkróki verður á árinu 2022 unnt að innrita öll börn frá 12 mánaða aldri.
- Mikil vinna lögð í deiliskipulagsvinnu íbúðasvæða, úthlutun lóða og gerð nýrra gatna.
- Og margt fleira …
Frambjóðendur á lista Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.