Frumsýning þjóðbúnings Pilsaþyts frestast um óákveðinn tíma

Til stóð að Pilsaþytur í Skagafirði myndi frumsýna þjóðbúning, sem þær hafa unnið að sl. tvö ár, þann 1. desember næstkomandi í Miðgarði. Í ljósi sóttvarnatakmarka vegna Covid-19 hefur þeirri samkomu verið slegið á frest í óákveðinn tíma.
Þjóðbúningurinn, kyrtill sem er einn af íslensku þjóðbúningunum, verður ætlaður til afnota fyrir Fjallkonu Svf. Skagafjarðar við hátíðleg tækifæri. Hann er með útsaumi neðst á pilsi, í hálsmáli og framan á ermum. Í aðsendri grein sem Ásta Jónsdóttir, formaður Pilsaþyts í Skagafirði, ritaði fyrir skömmu í Feyki, kemur fram að félagar Pilsaþyts hafi hist reglulega í tvö ár og saumað saman. „Covid 19 setti náttúrulega svolítið strik í reikninginn því aðstæður okkar eru misjafnar þannig að við hættum að hittast um tíma meðan mest flæðið var af því. En nú erum við komnar á þann stað að við erum farnar að sjá fyrir endann á verkefninu. Við höfum því ákveðið að frumsýna búninginn 1. desember næstkomandi í Miðgarði,“ skrifaði Ásta en félagsskapurinn hafði ákveðið að 1. desember verði héðan í frá þeirra dagur eða „Dagur Pilsaþyts.“
Að sögn Ástu hefur ný dagsetning fyrir frumsýningu kyrtilsins ekki verið ákveðin.