Fyrirhuguð verkföll BSRB hafa mikil áhrif í Skagafirði

Íþróttamannvirkin á Sauðárkróki. Mynd: PF.
Íþróttamannvirkin á Sauðárkróki. Mynd: PF.

Að öllu óbreyttu er hluti starfsfólks sveitarfélagsins Skagafjarðar á leið í verkfall þar sem Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþágu er innan BSRB. Að svo stöddu ná verkfallsboðanir til félagsmanna Kjalar sem starfa í sundlaugum, íþróttamannvirkjum, leikskólum, ráðhúsi, þjónustumiðstöð og Skagafjarðarveitum.

Á heimasíðu sveitarfélagsins segir að félagsmenn Kjalar á umræddum starfsstöðvum teljist um 80 svo ljóst sé að verkfallsaðgerðir munu hafa víðtæk áhrif á þá þjónustu sem umræddar stofnanir sveitarfélagsins veita íbúum Skagafjarðar. Jafnframt kemur fram að misjafnt verði hvernig áhrifa gæti, en í flestum tilvikum sé um að ræða styttri opnunartíma og eða skerta þjónustu en einhverjar stofnanir munu loka alveg á meðan verkfalli stendur en slíkt verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur.

Þá segir í tilkynningu Skagafjarðar að haft verði samband við foreldra og forráðamenn leikskólabarna varðandi útfærslu skólastarfs en gera má ráð fyrir því að börn þurfi að vera heima að einhverju leyti á verkfallsdögum.

Yfirlit yfir boðuð verkföll innan Skagafjarðar má sjá HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir