Gæðingafimi, slaktaumatölt og skeið 20. apríl
Keppt verður í gæðingafimi, slaktaumatölti og skeiði í reiðhöllinni Svaðastaðir á Sauðárkróki á morgun, miðvikudaginn 20. apríl kl.20:00. Gæðingafimin er krefjandi keppnisgrein þar sem reynir á ganghæfileika, þjálfunarstig hests og knapa, fegurð, kraft og glæsileik. Sýningin er spuni og ræðst árangur m.a. af útfærslu og frumkvæði knapa.
Í gæðingafiminni fær sýnandi fjórar mínútur til þess að sýna það besta sem knapi og hestur hefur uppá að bjóða og er dæmdur af tveimur dómurum sem gefa einkunnir fyrir gangtegundir, flæði, æfingar og fjölhæfni.
Dæmi um æfingar sem knapar geta notað í sýningu:
- Riðið á hringnum
- Krossgangur
- Sniðgangur opinn / lokaður
- Hraðabreytingar á gangtegundum; tölti brokki stökki
- Framfótarsnúningur
- Afturfótarsnúningur
- Riðin átta
- Skipt yfir allan völlinn
- Bakka
- Fet við langan taum
Ekki er þetta tæmandi upptalning heldur aðeins dæmi um hvað hægt er að notast við.