Höfundur Ósmanns heimsækir Sauðárkrók
Fimmtudaginn 29. janúar kl. 17:30 verður Joachim B. Schmidt gestur bókasafnsins á Sauðárkróki, þar sem hann mun lesa upp úr nýútkominni skáldsögu sinni Ósmann. Bókin fjallar um Jón Ósmann, ferjumanninn sem flutti menn og skepnur yfir eitt hættulegasta fljót landsins, Héraðsvötn um áratuga skeið og má segja að hann hafi orðið að þjóðsagnakenndum karakter í Skagafirði.
Um aldamótin 1900 voru mörg stórfljót landsins enn óbrúuð og fólk treysti á ferjumenn til að komast leiðar sinnar. Jón Ósmann var einn þeirra. Hann var sagður tröll að burðum, gjafmildur og barngóður, skáldmæltur og lífsglaður, guðsmaður jafnt sem drykkjumaður. En þrátt fyrir vinsældir og mannkosti urðu örlög hans hörð og hann lést fyrir aldur fram. Saga hans hefur lifað með Skagfirðingum – og nú í skáldsöguformi Joachims.
Joachim B. Schmidt, sem fæddur er árið 1981, er uppalinn í Ölpunum í Sviss en hefur búið á Íslandi í nær tvo áratugi. Hann skrifaði sig rækilega inn í hug og hjörtu lesenda með bókum sínum um Kalmann á Raufarhöfn, sem hafa verið þýddar á fjölda tungumála og hlotið verðlaun og tilnefningar. Nú beinir hann sjónum sínum að Skagafirði.
Í viðtali sem Feykir tók við Joachim fyrir jólin segir hann að áhugi hans á Ósmann kviknaði þegar hann var í námi í leiðsöguskólanum. „Ég lærði aðeins um þennan merka ferjumann og fór strax að velta fyrir mér hvað hefði komið fyrir hann. Hann var skemmtilegur karakter, stór og sterkur, ljóðskáld og gleðimaður – en svo fyrirfór hann sér í Ósi Héraðsvatnanna. Þetta fannst mér furðulegt,“ segir hann. Til að skilja söguna betur fór Joachim að rannsaka líf Ósmanns, kynntist afkomendum hans og áttaði sig fljótt á því að hér væri saga sem þyrfti að segja – í formi skáldsögu.
„Ósmann var sennilega frægasti ferjumaður Íslands. Hann var alltaf til staðar, tók að sér meira en hann þoldi og varð að lokum lúinn og þreyttur. Brotinn kannski,“ segir Joachim, sem bætir við að í bókinni sé einnig sögumaður sem stendur utan samfélagsins, dálítið skrítinn flakkari sem þráir vináttu Ósmanns. „Hann er þannig séð alveg eins og ég.“
Joachim segist heillaður af „skrítnum karakterum“, bæði körlum og konum, og viðurkennir að þótt Kalmann og Ósmann séu ólíkir eigi þeir það sameiginlegt að vera stórir karakterar.
Höfundaheimsóknin á bókasafninu gefur gestum tækifæri til að kynnast bæði höfundi og sögupersónu sem á djúpar rætur í Skagafirði. Upplesturinn hefst kl. 17:30 og eru allir velkomnir.
