Grillir í Fljótum - Torskilin bæjarnöfn

Loftmynd frá meintum heimahögum Nafar-Helga og Þórðar knapps við Sognfjörð í Noregi.Nr. 1, eyðibærinn Grinde. Nr 2, Hamre, en einnig er minnst á hann í Byggðasögunni og nr. 3, bærinn Haug. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar.
Loftmynd frá meintum heimahögum Nafar-Helga og Þórðar knapps við Sognfjörð í Noregi.Nr. 1, eyðibærinn Grinde. Nr 2, Hamre, en einnig er minnst á hann í Byggðasögunni og nr. 3, bærinn Haug. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar.

Þannig er bærinn alment kallaður nú. Rjetta nafnið er Grindill, því „á Grindli“ stendur í Landnámu (Landnáma, bls. 148), er sýnir, að nefnifall er Grindill. Og þannig á að rita það. Breytingin hefir að líkindum orðið á tímabilinu frá 1350 til 1450.

Í Guðmundarsögu dýra er nafnið rjett ritað – Grindill - en hún er færð í letur á öndverðri 14. öld (sjá ritgerð um Sturl. eftir dr. B. M. Ólsen í Safni til sögu Ísl. lll. b.). En í sölubrjefi frá, árinu 1453 kemur fram afbökunin Grillir (Dipl. Isl. V. b., bls. 117) og sömuleiðis í skiftabrjefi Gríms Pálssonar á Möðruvöllum um svipað leyti (Dipl. IX. b., bls.429).

Árni Magnússon hefir Grillir í Jarðabók sinni, og er það nafn haft í Jarðabókinni 1861. Aftur er Grindill í Johnsens Jarðatali. Skýring dr. Finns Jónssonar um, hvernig nafnið breyttist er auðvitað hárrjett, Þágufall Grindli varð vitaskuld að Grilli, og það smeygði sjer inn í nefnifallið, því að þgf. var oftast notað í daglegu tali (á Grindli, frá Grindli).

Breytingin felst því aðeins í framvirkri tillíkingu, samkvæmt venjulegum málsreglum. En út frá þessu spratt hrein albökun Grindlir sem nefnifall, sbr. Grillir (Ný Jarðabók, bls. 103). Grillir í Húnavatnssýslu, er Á. M. nefnir, er sjálfsagt afbökun á sama hátt (Safn t. s. Ísl. IV. b., bls. 574).

En hvað þýðir Grindill? Sumir álíta að nafnið sje myndað af grind, eins og rimill af rim, gimbill af gimbur o.fl. Aðrir að það geti átt skylt við fornenska orðið Grendel. En hvorugt verður fullyrt.

Mjer þykir það aftur vel trúlegt, að nafnið sje beinlínis kenningarheiti. Orðið grindill þýðir vindur eða stormur í fornum skáldskap (sbr. Lexicon Poeticum, bls. 203). Mörg bæjanöfn eru nú einmitt tekin úr skáldamálinu forna, t.d. Vigur, Kjólsvík, Knörr, Elliði, Hreggnasi, Beigaldi, Brimilsvellir o.s.frv. Ennfremur styðst tilgáta mín við veðurfar, þar sem bærinn er, því að kunnugir segja, að þar sje veðurnæmt mjög og byljasamt, enda stendur bærinn undir háu fjalli.

/Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

 Athugasemd úr Byggðasögu Skagafjarðar
Í áttunda bindi Byggðasögu Skagafjarðar er farið um Fellshrepp og Haganeshrepp í Fljótum og þar kemur ný og trúverðug skýring á bæjarnafninu Grindli:

„Í Landnámabók segir: „Þórður knappur hét maður sygnskur, son Bjarnar að Haugi, annar hét Nafar-Helgi; þeir fóru samskipa til Íslands og komu við Haganes. Þórður nam land upp frá Stíflu til Tunguár og bjó á Knappsstöðum.“ Síðan kemur nokkur ættrakning og svo heldur áfram frásögn Landnámu: „Nafar-Helgi nam land fyrir austan upp frá Haganesi til Flókadalsár fyrir neðan Barð og upp til Tunguár og bjó á Grindli; hann átti Gró ena (snar)skyggnu.“ Við skoðun þessa texta kemur nokkuð athyglisvert í ljós. Þórður og Helgi komu saman á skipi. Má því ætla að þeir hafi verið vinir og líkast til nágrannar, báðir sygnskir menn, þ.e. úr Sognfirði. Bærinn Haugur er innan til í Sognfirði á norðurströnd fjarðarins, ofan við þorpið Leikanger, skammt austan við Grindsdalen. Um dalbotninn rennur áin Grindselv og við dalsmynnið vestanvert, niður undir ströndinni, er eyðibýlið Grinde. Er nokkuð líklegra en Nafar-Helgi hafi beinlínis farið með bæjarnafnið með sér að heiman og nefnt bústað sinn í nýja landinu eftir þeim stað þar sem hann ólst upp?“

Áður birst í 28. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir