Hasarlífsstíll Arnars Úlfs

Hasarlífsstíll. Arnar Úlfur við kaggann. MYND AF FB
Hasarlífsstíll. Arnar Úlfur við kaggann. MYND AF FB

Eðal Skagfirðingurinn Arnar Freyr Frostason, öðru nafni Arnar Úlfur, sendi í gær frá sér splunkunýja sólóplötu sem ber titilinn Hasarlífsstíll. Á plötunni eru átta lög og fær kappinn til liðs við sig nokkra skínandi gesti sem hjálpa til við rappið. Hægt er að hlýða á verkið á tónlistarveitunni Spotify sem flestir ættu að þekkja.

Á Facebook-síðu meistarans segir: „Í morgun [gær] gaf ég út fyrstu sóló plötuna mína. Þetta verkefni hófst sem hálfgert grín á milli mín og Björns Vals, rétt á meðan ég beið eftir því að Helgi [hinn helmingur Úlfur Úlfur á móti Arnari] kláraði að gera tónlistina við Stellu Blómkvist seinasta haust. Björn gerði takta og ég gaulaði jafnóðum yfir þá án þess að setja spurningarmerki við nokkurn skapaðan hlut. 

Það var eiginlega alveg óvart að okkur fannst lögin það góð að við fórum að taka verkefnið alvarlega, hóa í okkar besta fólk til að taka þátt og brýna og slípa en ég gæti ekki verið sælli í dag með þá ákvörðun. Þetta mun sennilega lifa lengur en eitthvað grín á milli mín og Björns.

Gestir á plötunni eru Salka Sól, Helgi Sæmundur, Kött Grá Pje og Kjartan Lauritzen (Per Áki) og þau gera öll sitt besta til að kasta skugga á mig. Þannig á það að vera. 

5 lög eru eftir Björn Val, 2 eftir Sin Fang og 1 eftir Redd Lights.Björn Valur og Helgi mixuðu allt nema Hvítur tígur, Reddlights sáu um sig sjálfir. Friðfinnur Oculus masteraði allt.

Minn besti maður Magnús Leifsson gerði coverið og barnið á myndinni er ekki ég heldur Guðjón Bjarni. Pabbi hans tók upprunalegu myndina og hótaði að gera lampa úr mér og Magga ef við myndum svo mikið sem beygla ljósmyndina. 

Takk fyrir mig. Vonandi finnst ykkur þetta kúl.“

Í lokin er kannski rétt að bæta því við að Salka Sól rappar í ætt við Cardi B í laginu Falafel nema hvað Arnar segir það vera að gera út af við sig að hann hafi gleymt að ríma Salka Sól við Tindastól – sem er auðvitað synd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir