Heilmörg verkefni á borðinu
Í amstri hversdagsins hugsa fæstir um hvernig samskipti ríkisins við sveitarfélög ganga fyrir sig eða hver stendur að baki hinum ýmsu verkefnum sem framkvæmd eru í okkar nærsamfélagi. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra gegna æ stærra hlutverki í því sambandi og gera má ráð fyrir því að það verði aukið til muna í náinni framtíð. Til að forvitnast aðeins um þau fjölmörgu verkefni sem SSNV innir af hendi tók Feykir hús á Jóni Óskari Péturssyni framkvæmdastjóra SSNV sem segir frá því helsta í aðalviðtali blaðsins sem kom út í morgun.
-Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra voru stofnuð 1992 þegar Fjórðungssamband Norðlendinga var skipt upp í SSNV og Eyþing. Einhverra hluta vegna tóku menn þessa ákvörðun á þeim tíma og væntanlega voru það kjördæmamörkin sem réðu því hvar mörkin liggja. Landshlutasamtökin eru átta talsins og þau miðast í stórum dráttum við gömlu kjördæmaskiptinguna frá 1959, segir Jón en einhverjar hrókeringar hafa þó orðið innbyrðis þar sem meðal annars Bæjarhreppur gekk inn í SSNV um síðustu áramót og Siglfirðingar gengu úr SSNV inn í Eyþing árið 2008 og fleiri dæmi eru annars staðar á landinu. SSNV er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra. Öll sveitarfélög landsins eru aðilar að slíkum samtökum hvert af sínu svæði og telur Jón að sveitarfélögin hafi ávinning af slíkum samtökum.
Jón segir að samtökin séu misjöfn hvað varðar verkefni og að umfangi. Í grunnin er þetta pólitískur samráðsvettvangur sem þróast hefur í það að fleiri og fleiri verkefni eru falin samtökunum af sveitarfélögunum og síðustu ár hefur ríkisvaldið viljað færa verkefni til sveitarfélaganna þá í gegnum þessi samtök, segir Jón og líkir því við stundarglas þar sem ríkið er efri hluti glassins með ýmiss verkefni sem kemur þeim til SSNV sem er miðja þess og sveitarfélögin aftur neðri hlutinn sem tekur við verkefnunum. –Það má taka dæmi eins og um menningarsamninga sem gerðir eru við landshlutana, ekki við hvert og eitt sveitarfélag, segir Jón í viðtali Feykis. Einnig skýrir hann frá Sóknaráætlun 2020 sem oft er vitnað til og tólf meginstef hennar sem skipta Norðvestursvæðið miklu máli.