Hræin eru af útselskópum

Sagt var frá því fyrr í morgun að fimm selshræ hefðu rekið á land í fjörunni við Sauðárkrók. Sérfræðingur á Náttúrustofu Norðurlands vestra og Heilbrigðisfulltrúi Norðurlands vestra fóru nú í morgunsárið og skoðuðu hræin sem lágu á um 800 metra kafla í fjörunni. Ekki var að sjá nein ummerki að selirnir hefðu verið skotnir eða lemstraðir á annan hátt að sögn Þorsteins Sæmundssonar forstöðumanns NNV.

„Við greiningu kom í ljós að um útselskópa er að ræða og var sú greining borin undir sérfræðinga Selaseturs Íslands á Hvammstanga. Líklegt má telja að kópunum hefur skolað af skerjum í óverðinu síðastliðna daga, en stórt sellátur útsels er meðal annars að finna í Málmey,“ segir Þorsteinn og bætir við að Náttúrustofan vilji biðja fólk sem verður vör við dauða seli í fjörum að hafa samband annað hvort við stofuna eða Selasetur Íslands.

Fleiri fréttir