Íbúar í dreifbýli Skagafjarðar kjósa um fyrirkomulag sorphreinsunar
Vinna við gerð útboðsgagna vegna fyrirhugaðs útboðs á sorphirðu í Skagafirði er langt komin, segir í fundargerð umhverfis- og samgöngunefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Til stendur að gera leiðbeinandi skoðanakönnun hjá íbúum í dreifbýli þar sem að valið verður á milli þess að heimilissorp verði sótt heim á lögheimili í dreifbýli eða að fyrirkomulagið verði óbreytt.
Á fundi nefndarinnar var farið yfir tillögu að kosningarseðli og leiðbeiningar sem verður fylgiskjal með útskýringum á hvaða áhrif möguleikarnir hafa á þjónustustig og kostnað. Tillagan var samþykkt og málinu vísað áfram til afgreiðslu sveitastjórnar.