Júróvisjóngleði Sóldísar á Hofsósi í kvöld

Frá konudagstónleikum Sóldísar fyrr í vetur. Mynd: Eyvör Pálsdóttir.
Frá konudagstónleikum Sóldísar fyrr í vetur. Mynd: Eyvör Pálsdóttir.

Í kvöld mun Kvennakórinn Sóldís bjóða upp á alvöru Júróvisjónstemningu í Höfðaborg á Hofsósi enda styttist óðum í þá ágætu veislu. Tónleikar Sóldísar þetta árið bera yfirskriftina Eitt lag enn, sem er skírskotun í framlag Harðar G. Ólafssonar, Bassa, sem átti fyrsta íslenska lagið sem blandaði sér í toppbaráttuna í aðalkeppninni sem haldin var í Zagreb árið 1990. Þá var það hljómsveitin Stjórnin sem flutti lagið en nú verður það Sóldís og að sjálfsögðu með glimmer og gleði.

„Við erum með Eurovision lög á dagskránni og það er alltaf gleði í kringum Eurovision og ekki síður glimmer. Helgu Rós, kórstjóra og okkur í kórnum, fannst þessi lög kalla á hljómsveit og hann Rögnvaldur okkar fékk góða spilara með í bandið,“ sagði Drífa Árnadóttir, formaður kórsins í viðtali fyrir konudagstónleikana fyrr í vetur en þá lofaði hún skemmtilegum tónleikum með ýmsum Eurovisionlögum, bæði gömlum og nýjum. Við það stóð hún og því má búast við áframhaldandi Eurovision-partýi.

Sem fyrr stjórnar Helga Rós Indriðadóttir söng kórsins og Rögnvaldur Valbergsson fer fyrir hljómsveitinni sem auk hans er skipuð þeim Steini Leó Sveinssyni og Sigurði Björnssyni. Á fiðlu leikur Kristín Halla Bergsdóttir og Anna Karítas Ingvarsdóttir blæs í þverflautu. Einsöngvarar eru þær Elín Jónsdóttir, Ólöf Ólafsdóttir og systurnar Gunnhildur og Kristvina Gísladætur.

Tónleikarnir eru haldnir í félagsheimilinu Höfðaborg í kvöld 29. apríl og hefjast kl. 20.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir