Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland komin í samráðsgátt

Kindur. MYND: ÓAB
Kindur. MYND: ÓAB

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt landsáætlun um riðuveikilaust Ísland. Áætlunin er unnin af starfshópi sem var skipaður í janúar 2024 og gerir hún ráð fyrir umtalsverðri breytingu á nálgun við útrýmingu riðuveiki frá því sem verið hefur. Horft er frá því að reyna að útrýma riðusmitefninu sjálfu en megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu ásamt áframhaldandi aðgerðum til að hefta mögnun og dreifingu þess.

Samkvæmt áætluninni verða aðgerðir áhættumiðaðar, stigvaxandi og beint að tilteknum áhættuflokkuðum bæjum en ekki jafnt að öllum bæjum í viðkomandi varnarhólfi. Sjö ára tímaviðmið er tekið upp í stað 20 ára og er fyrirmyndin sótt í ESB-reglur um riðuveiki sem varða viðskipti með fé á milli landa, auk þess sem sjö ár er tvöfaldur meðalmeðgöngutími riðuveikismits.

Landsáætlunin gerir ráð fyrir flokkun á riðubæjum, áhættubæjum og öðrum bæjum í áhættuhólfi auk allra bæja landsins. Sett eru tímasett ræktunarmarkmið fyrir hvern flokk. Öllum sauðfjáreigendum verður gert skylt að rækta gegn riðuveiki í samræmi við stefnur og markmið sem sett eru í landsáætluninni. Miðað er við að ræktunarmarkmiðum verði náð fram með jákvæðum hætti; stuðningi, hvatningu og viðurkenningum. Gert er ráð fyrir að bætur taki mið af framgangi ræktunar miðað við ræktunarmarkmiðin, þannig að þeir bændur sem ekki fylgja áætluninni geti glatað rétti til bóta að hluta eða öllu leyti, sem er í samræmi við þá almennu reglu að fólki beri að takmarka tjón sitt sé þess kostur.

Frétt af Húnahorninu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir