Límónu fiskur og sykurlausar bollakökur

Gígja Hrund og Helgi Svanur. MYND AÐSEND
Gígja Hrund og Helgi Svanur. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar í tbl 41, 2022, voru Helgi Svanur Einarsson og Gígja Hrund Símonardóttir á Króknum. Gíg ja er fædd og uppalin í Hegranesi í Skagafirði, en Helgi er fæddur og uppalinn í Torfalækjarhreppi hinum forna í nágrenni Blönduóss og hafa þau bæði búið á Sauðárkróki síðastliðin 20 ár.

Helgi er menntaður bæði skrúðgarðyrkjumeistari og húsasmíðameistari og saman vinna þau hjónin við fyrirtækið sitt Garðprýði ehf. við garðyrkju og smíðar. Þau eiga saman fjögur börn á flestum skólastigum sem Skagafjörðurinn býður upp á: Heiðar Birki 17 ára, Hilmar Örn 14 ára, Bryndísi Dögg 10 ára og Svanhildi Ástu 5 ára. Þau deila einnig heimili með einum hundi og tveimur köttum. „Yfirleitt er eldað á heimilinu með mælieiningunum dass og slatta og svo því sem til er í ísskápnum í það skiptið. En stundum reynum við að vera fáguð og fylgja uppskriftum og látum hér fylgja með uppskrift af dýrindis bláberja múffum sem okkur finnst algert æði, og ekki skemmir fyrir að þær eru bæði glúteinlausar og sykurlausar. Einnig er uppskrift af hversdags fiskrétti sem okkur finnst alltaf góður,“ segir Helgi Svanur.

UPPSKRIFT 1
Karrý límónu fiskur

    1 rauðlaukur
    2 tsk. kraminn hvítlaukur
    2 tsk. rifið engifer
    2 tsk. karrý
    1 dós kókosmjólk
    sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk
    limesafi eftir smekk
    800 g hvítur fiskur
    kóríander til að dreifa yfir

Aðferð: Bræðið kókosolíu á pönnu og steikið rauðlaukinn þar til mjúkur. Bætið við hvítlauk og engifer, ásamt karrýinu og steikið í u.þ.b. mínútu í viðbót. Hellið kókosmjólkinni út í, kryddið með salti og pipar og lime safa. Látið suðuna koma upp og bætið þá fiskinum út í. Látið fiskinn sjóða við lágan hita í 10 mínútur í sósunni eða þar til hann er tilbúinn. Berið fram með ferskum kóríander. Okkur finnst gott að hafa Naan brauð og hrísgrjón eða Kínóa með.

UPPSKRIFT 2
Sykurlausar banana og súkkulaði bollakökur

    3 þroskaðir bananar
    200 g haframjöl
    2 egg
    50 g kókosolía
    1 tsk. vanilludropar
    1 tsk. matarsódi
    1 tsk. lyftiduft
    1 tsk. kanill
    200 g bláber
    100 g sykurlaust súkkulaði t.d. frá Sírius eða Valor

Aðferð: Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir- og yfirhita. Stappið bananana í skál þar til þeir eru orðnir að mauki, bætið þá eggjum, haframjöli, bræddri kókosolíu, vanilludropum, matarsóda, lyftidufti og kanil út í skálina og hrærið öllu vel saman. Skerið sykurlausa rjómasúkkulaðið gróft niður og blandið saman við ásamt bláberjunum. Setjið deigið í bollakökuform. Bakið í 25 mín. eða þar til kökurnar eru aðeins byrjaðar að brúnast.

Verði ykkur að góðu!

Helgi og Gígja skoruðu á Ingvar Gýgjar Sigurðarson og Eygló Amelíu Valdimarsdóttir að taka við matgæðingaþætti Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir