Margt gagnlegt og skemmtilegt um að vera hjá félagi Sjálfsbjargar - fundur í dag
Félag Sjálfsbjargar í Skagafirði efnir til félagsfundar í dag, mánudaginn 27. febrúar kl. 17:30, í Húsi frítímans. Félagið var endurvakið á síðasta ári en á stefnuskránni er að vera með virkt félag sem tekur á þeim baráttumálum sem brenna á félagsmönnum, s.s. aðgengismál, kjaramál og fleira.
„Í deiglunni er að fá til okkar góða fyrirlesara og fleira gagnlegt og skemmtilegt,“segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Til stendur að vera með opið hús á fimmtudagsmorgnum í apríl og maí hjá Sjálfsbjörg í húsi Frítímans frá kl. 10-12. Til að byrja með verður opið fimmtudagsmorgnana 12. og 26. apríl.
Ólafur R. Ólafsson, félagi í Sjálfsbjörg, mun að taka á móti fólki og hægt verður að leita þar ráðgjafar, aðstoðar eða jafningjafræðslu, nú eða bara grípa í spil og spjalla.
Félagsmenn eru beðnir um að fjölmenna og nýir félagar eru velkomnir.