Nönnu Rögnvaldar leiðist ekki að vera ein um jólin

Þeir sem búa einir þekkja það að elda fyrir einn getur verið leiðigjarnt til lengdar og oftar en ekki verða afgangar sem þarf að ráðstafa á einhvern hátt. Nú hefur Nanna Rögnvaldardóttir tekið sig til og gefið út bók sem ætti að koma að góðum notum í einstaklingseldhúsinu enda segir hún að það sé ekkert mál að elda litla skammta og útbúa girnilegan, hollan, einfaldan og bragðgóðan mat af öllu tagi án þess að þýða eilífa afganga og sama matinn marga daga í röð. JólaFeykir fékk Nönnu til að segja frá bókinni og forvitnaðist um leið um jólahaldið hjá henni sem hún segir að sé ekki dæmigerð lengur. Þá fylgir uppskrift að alvöru súkkulaðibúðingi sem gott er að gæða sér á eftir góða máltíð.
Nafn bókarinnar skýrir sig sjálft þar sem allar uppskriftir eru ætlaðar fyrir einn, hvort sem um er að ræða hversdagsrétti eða veislumat, pottrétti og súpur eða létta rétti, kjötrétti, fiskrétti eða grænmetisrétti, eftirrétti, kökur eða meðlæti. Hér er jafnvel tilvalin jólagjöf fyrir þá sem vantar hugmyndir, uppskriftir og ráðleggingar um hvernig hægt er að elda góðan, hollan og spennandi mat í litlum skömmtum. Hún segir að þegar hún hafi verið að vinna að bókinni hafi hún verið með í huga bæði ungt fólk sem er kannski að feta sín fyrstu skref, fólk sem er vant að elda ofan í sjálft sig en vantar nýjar hugmyndir og kannski ekki síst fólk sem hefur eldað ofan í fjölskylduna í áratugi en er nú eitt eftir og kann ekki að elda litla skammta. Svo er auðvitað enginn vandi að stækka uppskriftirnar aðeins þannig að þær dugi fyrir tvo.
-Ég er búin að elda fyrir mig eina í 15-20 ár – nema auðvitað þegar einhver kemur í mat, sem gerist nú oft – en uppskriftirnar sem ég sendi frá mér hafa oftast verið miðaðar við fjóra, stundum tvo. Mér fannst bara kominn tími til að skrifa bók sem lýsir því hvernig ég elda mat handa mér sjálfri.
Var eitthvað sem kom þér á óvart við gerð bókarinnar eða einhver skemmtileg atvik?
-Kannski helst að ég tók allar myndirnar úti á svölum hjá mér í Fossvoginum og notaði gróðurinn sem ég er með þar í pottum og kerum sem bakgrunn til að sýna hvernig árstíðirnar breyttust. Það gekk mjög vel með vorið og sumarið og haustið en þá voru vetrarmyndirnar eftir. Ég hélt að það yrði nú ekki vandamál en síðasti vetur var lengi framan af með þeim snjóléttustu sem ég man eftir hér í Reykjavík. Ég beið og beið eftir að geta tekið vetrarmyndir en aldrei kom snjórinn. Eina helgina kom þó smásnjór og ég mokaði því litla sem var á svalagólfinu upp á borð til að hafa undir matardiskinum.
En það kom strax hláka og ég náði ekki að taka nema tvær eða þrjár myndir. Ég var farin að tauta að ég yrði bara að flytja í Skagafjörðinn um stundarsakir til að geta klárað. En svo sá ég á jóladag að það var spáð snjókomu um nóttina. Ég tíndi til allt sem ég átti til að nota í þær uppskriftir sem ég átti eftir að mynda, fór út í búð um leið og var opnað á annan í jólum til að kaupa það sem á vantaði og náði að elda allt og taka síðustu myndirnar áður en hlánaði á þriðja. Þetta voru ekki rólegustu jól sem ég hef átt.
Þetta er orðinn dágóður fjöldi matreiðslubóka sem þú hefur gefið út. Er einhver bók eða réttur sem er í uppáhaldi hjá þér?
-Núna held ég mest upp á nýju bókina, ég er ánægð með allt: uppskriftirnar, myndirnar, útlitshönnunina og ekki síst grunnhugmyndina, ég held að það hafi verið mikil þörf á svona bók. En ég hef sent frá mér einhvers staðar vel yfir 6000 uppskriftir og get með engu móti valið eitthvert eitt uppáhald.
Hvernig eru dæmigerð jól hjá þér?
-Það eru engin jól dæmigerð hjá mér lengur, ég fer yfirleitt ein til útlanda um jólin, vel mér nýtt land í hvert skipti og er búin á síðustu árum að upplifa alls konar jólastemningu – eða ekki, eitt árið fór ég til Famagusta á Norður-Kýpur og þar voru alls engin jól, aðfangadagur og jóladagur voru bara venjulegir dagar og hvergi jólaskraut að sjá.
Þó fæstir vilji vera einir á jólum gerist það samt. Hvaða veislumat mælir þú með yfir hátíðirnar, fyrir einn?
-Ég er í hópi þess fólks sem vill helst vera eitt, satt að segja. Ég fór ekki til útlanda um jólin í fyrra vegna Covid en ákvað að prófa að vera ein á aðfangadagskvöld heima hjá mér og tilkynnti börnunum mínum það; þau þekkja sérviskuna í mömmu sinni og voru alveg sátt. Ég eldaði mér fimmréttaða lúxusmáltíð, það var mjög skemmtilegt. En það er t.d. uppskrift í nýju bókinni að andarbringu sem er upplagður hátíðarmatur fyrir einn, oftast hægt að kaupa staka bringu og þetta er matur sem er auðvelt og fljótlegt að elda. Eins er þarna humarsúpa fyrir einn. Svo eru líka grænmetisréttir sem gætu hentað á jólaborðið fyrir einn – til dæmis þegar einn úr fjölskyldunni er grænmetisæta, hinir ekki.
Og svo er hér uppskrift að eftirrétti sem gæti hentað fyrir einn um jólin:
Súkkulaðibúðingur
Alvöru súkkulaðibúðingur: súkkulaði, rjómi og egg. Það gerist nú ekki mikið einfaldara eða betra – og ekkert mál að gera lítinn (en ekkert mjög lítinn) skammt til að gæða sér á eftir góða máltíð.
60 g suðusúkkulaði
75 ml rjómi
1 egg
1 tsk. sykur
1 tsk. líkjör eða ½ tsk. vanilla
e.t.v. ber eða ávextir til skreytingar
Brjóttu súkkulaðið í bita, settu það í lítinn pott ásamt rjómanum og hitaðu rólega þar til súkkulaðið byrjar að bráðna. Taktu þá pottinn af hitanum og hrærðu þar til súkkulaðið er bráðið og blandan alveg slétt. Láttu kólna svolítið.
Aðskildu eggið og stífþeyttu hvítuna. Þeyttu rauðuna, sykurinn og líkjörinn eða vanilluna í annarri skál og þeyttu súkkulaðiblöndunni saman við. Blandaðu eggjahvítunni gætilega saman við með sleikju, helltu í ábætisglas eða skál og settu í kæli í a.m.k. 2-3 klst. Skreyttu t.d. með berjum eða ávöxtum, eða þeyttum rjóma, rifnu súkkulaði eða öðru.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Ég vil bara óska öllum lesendum Feykis gleðilegra jóla.