Nú má allt fara laust í grænu tunnuna!
Flokka kynnir þessa dagana nýjung varðandi flokkun í Svf. Skagafirði. Breytingin felst í því að allt sem áður fór flokkað í poka í grænu tunnuna má nú fara laust í grænu tunnuna. Semsagt; engir glærir pokar lengur.
Fram kemur á heimasíðu Flokku ehf. að nú fari allt sorp úr grænu tunnunni á færiband hjá þeim þar sem það er flokkað og síðan sett í bagga og sent suður. Eftir sem áður er mikilvægt að ekkert annað en endurvinnanlegt efni fari í grænu tunnuna.
Það sem má fara í grænu tunnuna er pappi og pappír, dagblöð og tímarit, fernur, heimilisumbúðaplast (hart og mjúkt) og ál- eða málmdósir. Umbúðirnar þarf að skola og þerra áður en þær fara í tunnuna.
Nánari upplýsingar um þetta, sem og aðrar upplýsingar frá Flokku, má finna á netsíðunni góðu, flokka.is >