Óánægja með fyrirkomulag strandveiða
Samtök íslenskra fiskimanna (S.Í.F.) harmar þá ákvörðun stjórnvalda að hafa fyrirkomulag strandveiða með sama hætti og í jafn litlum mæli og var á síðasta fiskveiðiári, samkvæmt ályktun sem samtökin hafa sent frá sér vegna nýsettrar reglugerðar um strandveiðar á fiskveiðiárinu 2010-2011.
Í ályktuninni segir: „Fyrir síðustu kosningar lofuðu núverandi stjórnarflokkar frjálsum handfæraveiðum og fylgdu því loforði eftir með lögum um strandveiðar. Í trausti þess að til stæði að bæta úr vonlausri stöðu sjávarplássa og jafnframt stæði til að virða mannréttindi hér á landi fjárfesti fjöldi manna í bátum og búnaði til þess að stunda þessar veiðar og þar með afla sér og sínum lífsviðurværis.
Fjöldi fjölskyldna allt í kringum landið eiga þar af leiðandi allt sitt undir því að fá að stunda þessar veiðar og hafa til þess lagt húseignir sínar að veði. Augljóst er að ekkert annað en gjaldþrot bíður margra útgerða, sem að létu blekkjast af loforðum stjórnmálamanna um frelsi til strandveiða.
Ekki einu sinn eru gerðar þær lágmarksbreytingar á stjórn veiðanna að heimila frjálsar ufsaveiðar og stuðla með því að hærra hlutfalla ufsakvótans náist á hverju ári. En síðan ufsi var settur í krókaflamark hefur aðeins um 40% kvótans náðst og því óskyljanlegt að hann sé bundinn í kvóta.
S.Í.F. gerir þá kröfu að stjórnvöld aflétti nú þegar ólögmætum hömlum á handfæraveiðar.
Engin vistfræðileg, hagfræðileg né siðfræðileg rök hníga til annars. Án verulegrar fjárfestingar má vel skapa 1000 störf á sjó, 400 störf við vinnslu aflans og yfir 2000 afleidd störf. Greiðslur atvinnuleysisbóta myndu minnka um 7-8 milljarða og útflutningsverðmæti gæti verið á bilinu 10-15 milljarðar. Án þess að lífríkinu verði hætta búin.
Flokkar þeir sem kenna sig við félagshyggju og jafnaðamennsku og halda um stjórnataumana í dag eru í aðstöðu til þess að standa við loforð sín síðan fyrir síðustu kosningar. Nú ríður á að stjórvöld standi keik gegn oki sérhagsmunaafla og skapi störf svo að um munar, eina sem þarf er vilji.“