Óhlutbundnar kosningar i Akrahreppi og Skagabyggð
Samkvæmt kosningavef innanríkisráðuneytisins munu óhlutbundnar kosningar fara fram í átján af sjötíu og fjórum sveitarfélögum á landinu þann 31.maí nk. Þar af eru tvö sveitarfélög á Norðurland vestra, Akrahreppur í Skagafirði og Skagabyggð í Austur-Húnavatnssýslu.
Óhlutbundnar kosningar, sem í daglegu tali eru oft kallaðar persónukjör, þýða að allir kjósendur í sveitarfélaginu eru í kjöri, með þeirri undantekningu að þeir sem setið hafa í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur geta skorast undan kjöri, enda tilkynni þeir yfirkjörstjórn það fyrir lok framboðsfrests, þ.e. fyrir 10. maí 2014, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Skal yfirkjörstjórn auglýsa með viðeigandi hætti nöfn þeirra sem skorast hafa undan endurkjöri. Öllum öðrum sem eru kjörgengir, heilir og hraustir og yngri en 65 ára, er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn við óbundna kosningu.
Þessar upplýsingar koma fram á vefnum kosning.is. Þar geta kjósendur m.a. aflað sér upplýsinga um hvar þeir eru á kjörskrá, með því að slá inn kennitölu og kemur þá upp nafn, lögheimili og sveitarfélag. Í mörgum tilfellum birtast einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild. /KSE