OK færði viðskiptavinum sínum óvæntan glaðning í tilefni af titli

Karsten og Hugbjört bakaranemi við eina kökuna. MYND AÐSEND
Karsten og Hugbjört bakaranemi við eina kökuna. MYND AÐSEND

Það er óhætt að fullyrða að flestir ef ekki allir stuðningsmenn Stólanna svífi enn á sæluskýji eftir lið Tindastóls nældi loks í Íslandsmeistaratitilinn í körfubolti. Árangurinn hefur vakið mikla og jákvæða athygli og gaman að fylgjast með því hversu margir hafa samglaðst Tindastólsfólki og Skagfirðingum. Nú í morgun fengu síðan viðskiptavinir OK (Opinna Kerfa) á Sauðárkróki óvæntan glaðning því fyrirtækið, sem er með útibú á Króknum, hafði fengið Sauðárkróksbakarí til að baka veglega súkkulaðitertu til að færa viðskiptavinum sínum í tilefni meistaratitilsins.

Á tertunum eru eftirfarandi skilaboð: Við óskum ykkur til hamingju með fyrsta Íslandsmeistaratitilinn af mörgum. Áfram Tindastóll.

Að sögn Péturs Inga Björnssonar, öryggis- og gæðastjóra hjá OK, þá vildu starfsmenn og eigendur OK endilega gera eitthvað skemmtilegt til að samfagna með viðskiptavinum sínum í Skagafirði og ekki þótti verra að tengja Sauðárkróksbakarí við verkefnið sem varð jú fyrir töluverðu tjóni fyrr í maí þegar bíl var ekið inn í afgreiðsluna.

Snorri bakari var ánægður með þetta óvænta verkefni, að baka 27 kökur í hvelli, sem datt í hús seinni partinn á föstudag og var því bakað um helgina og terturnar skreyttar undir kvöld í gær. Aðspurður um hvenær tekst að opna afgreiðslu bakarísins að nýju þá sagðist Snorri vera bjartsýnn á að það takist að opna strax um næstu helgi eftir bráðabirgðaviðgerð. Sem eru aldeilis góðar fréttir því reiknað var með tveggja mánaða lokun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir