Ómakleg athugasemd bæjarfulltrúa

Veðurofsinn sem gekk yfir landið í síðustu viku var slíkur að umfangi að hann verður seint talinn annað en náttúruhamfarir. Skagfirðingar voru á meðal þeirra íbúa landsins sem fóru hvað verst út úr fárviðrinu. Viðbragðsaðilar brugðust við stöðunni í Skagafirði af miklum myndarskap og við íbúar sveitarfélagsins hljótum að vera auðmjúkt þakklátir fyrir þeirra óeigingjarna framlag.

Lengi hefur verið umræða um eflingu innviða í Skagafirði og rafmagnsleysið sem varð í kjölfar aftakaveðursins hefur eðlilega varpað kastljósinu á raforkuöryggi Skagfirðinga. Það er mjög eðlilegt að bæjarfulltrúar setji aukinn slagkraft í baráttu fyrir innviðum samfélagsins og gæti hagsmuna Skagfirðinga. Til þess eru þeir kjörnir. Hins vegar fannst mér vegið að mér og eiginkonu minni í pistli Gísla Sigurðssonar, sveitarstjórnarfulltrúa, hér í Feyki þegar Gísli blandaði málshöfðun félags í eigu okkar gegn sveitarfélaginu, vegna línustæðis Blöndulínu 3, inn í umræðu um raforkuöryggi í kjölfar náttúruhamfaranna.

Það er ómaklegt hjá kjörnum fulltrúa að gefa í skyn að þessi málshöfðun hafi eitthvað með raforkuöryggi og innviði Skagfirðinga að gera. Okkur, rétt eins og öðrum íbúum sveitarfélagsins, er mjög umhugað um uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu og aukið raforkuöryggi íbúa þess. Það mál sem hér um ræðir snýst hins vegar um að sveitarfélagið Skagafjörður fór ekki að lögum þegar tekin var ákvörðun um lagningu línustæðis vegna Blöndulínu 3. Aðalskipulagsbreytingin vegna lagningu línunnar er haldin slíkum ágöllum að hana ber að ógilda í heild sinni og á því byggir okkar málshöfðun. Við hjón höfum bent á að lagning línunnar um Kiðaskarð er mun heppilegri og styttri. Hins vegar væri best að leggja línuna í jörðu og það hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni að enn sé verið að setja upp háspennumöstur, með tilheyrandi sjónmengun, þegar svona vel er liðið á 21. öldina. Best væri fyrir alla, bæði íbúa sveitarfélagsins og aðra sem vilja njóta náttúrufegurðar í Skagafirði, að línan væri lögð í jörð að stærstum hluta.

Tímasetning á þingfestingu stefnunnar gegn sveitarfélaginu var algjör tilviljun og er ótengd atburðum síðustu viku. Það er mjög óheppilegt að kjörinn fulltrúi leggist gegn því að venjulegt fólk neyti lögmætra úrræða til að verja hagsmuni sína, líkt og Gísli Sigurðsson gerir í grein sinni. Þá er ekki málefnalegt að gefa í skyn að með málshöfðuninni sé verið að ganga gegn almennum hagsmunum íbúanna í sveitarfélaginu.

Að þessu sögðu vil ég árétta mikilvægi þess að innviðir Skagafjarðar verði efldir. Í þeirri vinnu er það auðvitað lágmarkskrafa að sveitarfélagið fari að lögum.

Gunnar B Dungal
Höfundur býr í Héraðsdal

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir