Prýddu plakat í skagfirsku sólarlagi ´84

Stelpnabandið ódauðlega Dúkkulísurnar ætla að spila á Tónlistarhátíðinni Gærunni um helgina og geta ekki beðið! Feykir heyrði í stelpunum og spurði þær út í pönkið og rokkið.

Hvenær var hljómsveitin stofnuð og hvað heita hljómsveitarmeðlimir?

Þann 10. október 1982. Við erum orðnar sjö Dúkkulísurnar í dag og heitum: Adda María - slagverk, Erla Ingadóttir - Bassaleikari, Erla Ragnarsdóttir - söngur, Gréta Sigurjónsdóttir - gítarleikari, Guðbjörg Pálsdóttir - trommur, Harpa Þórðardóttir - hljómborð, Hildur Ásta Viggósdóttir – hljómborð.

Hvernig mynduð þið lýsa tónlist ykkar?

Pönkskotið stelpurokk!

Hefur einhvern tímann eitthvað skondið átt sér stað á tónleikum hjá ykkur?

Já, heilmargt. Og af því að við erum á Norðurlandinu þá getum við auðveldlega rifjað upp gömlu og góðu Freyvangsböllin sem haldin voru á 9. áratug síðustu aldar! Þau böll voru þau einu þar sem við þurfum lífverði upp á svið hjá okkur - Freyvangur var alltaf troðinn og þá helst af karlmönnum, sem við flissuðum auðvitað oft yfir! Annars spiluðum við líka á ógleymanlegu balli á Króknum 1984 - mjög vel heppnuðu. Eftir ball var okkur þeytt út í skagfirska sólarlagið í myndatöku sem síðan varð að plakati ABC - barnablaðsins og prýddi víst mörg unglingaherbergin það sumarið.

Hvernig leggst í ykkur að spila á Gærunni 2012?

Frábærlega - við getum ekki beðið! Við ætlum að mæta snemma og njóta alls þess sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða. Og sjá Gildruna!

Hvað er á döfinni?

Risastór afmælisveisla í október - á Kaffi Rósenberg! Þar verður 30 ára afmælinu fagnað með stæl!

Eitthvað að lokum?

Munum við ekki örugglega komast á bak um helgina??

http://www.youtube.com/watch?v=UwgjoauLWyg

 

Fleiri fréttir