Sagað, heflað og skrúfað við undirbúning sveinsprófs

Það hefur verið unnið af kappi í trésmíðadeild FNV þessa dagana. Myndir:FE
Það hefur verið unnið af kappi í trésmíðadeild FNV þessa dagana. Myndir:FE

Það var sannarlega mikið um að vera þegar blaðamaður leit við í verknámshúsi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í morgun en þar kepptist hópur nemenda við að æfa sig fyrir sveinspróf í húsasmíði sem fer fram í skólanum næstu daga.

Líklega hafa aldrei verið jafn margir nemendur samankomnir í trésmíðadeild skólans en þar hafa 24 nemendur, víðsvegar að af landinu, unnið af kappi að því undanfarna daga að undirbúa sig fyrir prófið sem hefst á morgun og stendur í þrjá daga. Þeir Eyþór Fannar Sveinsson, Helgi Hrannar Traustasson og Óskar Már Atlason, kennarar við trésmíðabraut, voru að vonum kampakátir og sögðu að búið væri að smala saman hefilbekkjum hjá flestum trésmíðaverkstæðum bæjarins til að mæta eftirspurninni og vilja koma á framfæri kæru þakklæti til allra þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem hlupu undir bagga með þeim við þessar óvenjulegu aðstæður. Að þeirra sögn er FNV einn fárra skóla sem bjóða upp á slíkt undirbúningsnámskeið og greinilegt er að það ríkir mikil ánægja með það.

Aðsókn í nám í tréiðnum hefur verið mjög góð upp á síðkastið en auk hins hefðbundna dagnáms hefur skólinn boðið upp á helgarnám í tréiðngreinum sem hefur notið mikilla vinsælda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir