Samfylkingin boðar til opinna funda á Norðurlandi vestra :: Heilbrigðismálin í forgrunni og öllum velkomið að taka þátt

Samfylkingin hefur upp á síðkastið boðað til fjölda opinna funda um heilbrigðismál um land allt. Fundirnir eru opnir öllum og liður í nýju og umfangsmiklu málefnastarfi sem Kristrún Frostadóttir formaður flokksins hefur ýtt úr vör. Þrír slíkir fundir um heilbrigðismál verða á Norðurlandi vestra dagana 8. og 9. maí og fara þeir fram á eftirfarandi stöðum:

Kiljan á Blönduósi — kl. 17:00, mánudag 8. maí
Kaffi Krókur á Sauðárkróki — kl. 20:00, mánudag 8. maí
Sjávarborg á Hvammstanga — kl. 12:00, þriðjudag 9. maí

Kristrún mætir sjálf til leiks á fundunum á Norðurlandi vestra, þrátt fyrir að vera í fæðingarorlofi, til að taka samtalið við heimamenn og fylgja nýju málefnastarfi Samfylkingarinnar af stað. Hún leggur áherslu á að allir séu velkomnir og ekki verði spurt um flokksskírteini fólks.

Heilbrigðismálin efst á blaði

„Heilbrigðismálin og öldrunarþjónustan eru í forgrunni hjá okkur núna og alveg fram á haust. Fyrst förum við af stað með hátt í fjörutíu opnum fundum með fólkinu í landinu. Svo erum við með stýrihóp sem leiðir vinnuna og fundar líka með fólki af gólfinu og öðrum sérfræðingum úr heilbrigðiskerfinu,“ segir Kristrún í tilkynningu til Feykis.

„Ég hélt sjálf fjölda opinna funda um land allt á síðasta ári, meðal annars nokkra eftirminnilega á Norðurlandi vestra, og þeir fundir höfðu mikil áhrif á mig. Svona viljum við gera þetta og við tökum vinnuna alvarlega; nú undirbúum við breytingar á sviði heilbrigðismála og það er ekki vanþörf á.“

Kristrún kemur til að hlusta

„Ég er ekki að koma til þess að messa yfir fólki. Þvert á móti, þetta eru alvöru samtalsfundir og núna erum við bara að koma til að hlusta. Þannig fáum við skýrari mynd af því hvað það er í raun sem helst brennur á almenningi í þessum málaflokki. Svo hefur fagfólk líka mætt vel á fundina og þaðan fáum við mikilvæga innsýn sem mun nýtast í vinnunni sem er framundan,“ segir Kristrún.

Á fundunum eru líka fulltrúar úr stýrihópi Samfylkingarinnar um heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Formaður í stýrihópnum er Anna Sigrún Baldursdóttir sem er hjúkrunarfræðingur að mennt og leiðir nú öldrunarþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Hún vann áður meðal annars sem framkvæmdastjóri á Landspítala og sem aðstoðarmaður velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar heitins, sem þá var oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Öllum velkomið að taka þátt

Kristrún leggur áherslu á að öllum sé velkomið að mæta á fundina og taka þátt. Ekki verði spurt um flokksskírteini fólks. „Nú erum við að opna flokkinn og leggjum áherslu á að taka samtal við fólkið í landinu. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu,“ segir Kristrún sem bætir við að það sé strax farin að teiknast upp skýr mynd af raunhæfum væntingum fólksins í landinu til heilbrigðisþjónustu.

„Ert þú með sérþekkingu í heilbrigðismálum eða reynslu af gólfinu? Eða ertu almennur borgari sem vill sjá breytingar til hins betra í heilbrigðismálum á Íslandi? Þá viljum við fá þig með í samtalið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir