Sandra, Jón Daníel og Alda taka við Sauðá

Feðginin Jón Daníel og Sandra Björk kampakát í afgreiðslunni á Sauðá. Staðurinn er opnaður kl. 17 alla daga nema mánudaga og er opinn frameftir kvöldi. Opnunartíminn verður enn meiri í sumar. MYNDIR: ÓAB
Feðginin Jón Daníel og Sandra Björk kampakát í afgreiðslunni á Sauðá. Staðurinn er opnaður kl. 17 alla daga nema mánudaga og er opinn frameftir kvöldi. Opnunartíminn verður enn meiri í sumar. MYNDIR: ÓAB

Þegar leið á aprílmánuð fór að kvisast út að veitingastaðurinn Sauðá í Sauðárhlíð á Sauðárkróki hefði skipt um eigendur. Ekki er langt síðan húsinu, sem oftast hefur gengið undir nafninu Gamla hlaðan, var gjörbylt og byggt við það en það opnaði sem nýr og forvitnilegur veitingastaður þann 22. júlí 2021. Nú hafa semsagt nýir eigendur tekið við keflinu en það eru reynsluboltarnir Sandra Björk Jónsdóttir, Jón Daníel Jónasson og Alda Kristinsdóttir, sem síðast ráku Gránu Bistro og þar á undan Kaffi Krók um árabil.

Feykir hafði samband við Söndru sem staðfesti að Maggi og Kolbrún hefðu haft samband varðandi sölu á Sauðá og þau hafi slegið til eftir að hafa hugsað málið vel og vandlega. Sandra segir að staðurinn muni að sjálfsögðu áfram bera nafnið Sauðá.

Það sem háði nokkuð staðnum fyrstu misserin var að ráða kokka í eldhúsið svo það lá beint við að spyrja hvort allt væri klappað og klárt í þeim efnum. „Já, við erum búin að fullmanna sumarið með flottu fólki. Við breyttum um matseðil og leggjum áherslu á hráefni úr héraði,“ sagði Sandra og bætti við að reikna megi með því að gestakokkar komi í pop-up heimsóknir á Sauðá. Þá má reikna með mismunandi áherslum á matseðli eftir árstíðum.

Hverju mega Skagfirðingar og gestir búast við á Sauðá? „Góðum mat, kokteilum og góðri þjónustu!“

Sauðá opnaði að nýju sl. fimmtudag og þá með nýjan matseðil. Aðdáendur buffalóvængja og smælkis, sem slógu í gegn í Gránu hér um árið, geta tekið gleði sína á ný en að auki eru í boði fleiri smáréttir, þrír aðalréttir og gómsætur eftirréttur. Þá má ekki gleyma spennandi pizzuseðli. Að sögn Söndru og Jóns Daníels var stappað á Sauðá á laugardeginum þegar leikur Tindastóls og Njarðvíkur var spilaður. Sauðá er auðvitað aðeins spölkorn frá Síkinu og því í suðupottinum á leikdegi.

„Hugmyndin of góð til að sleppa henni“

Það voru hjónin Kolbrún Dögg Sigurðardóttir og Magnús Freyr Gíslason, arkitekt, og Róbert Óttarsson og Selma Barðdal sem réðust í það verkefni að breyta hlöðunni í veitingastað. Reksturinn var svo í höndum Magnúsar og Kolbrúnar sem voru bæði að sinna sinni venjulegu vinnu meðfram rekstri Sauðár; Kolbrún að kenna og Magnúsarkitekt hjá Stoð. „Eftir að hafa fengið þá hugmynd að breyta gömlu hlöðunni í Sauðárhlíð í veitingastað þá var ekki aftur snúið, hugmyndin var of góð til að sleppa henni – veitingastaður á þessum stað yrði frábær viðbót við bæinn okkar. Við létum slag standa og byggðum Sauðá, krefjandi verkefni en svo skemmtilegt!“ segir í skilaboðum sem þau póstuðu á Facebook.

Um leið á Kolbrún og Magnús þakka innilega fyrir viðskiptin segja þau: „Nú er kominn tími til að sleppa takinu á Sauðá,barninu okkar, og leyfa öðrum að taka reksturinn á næsta level. Sauðá á fullt inni og við treystum nýjum eigendum fullkomnlega fyrir verkefninu og gætum ekki verið sáttari.“ /ÓAB

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir