Símenntun HA útskrifar leiðsögumenn

Símenntun Háskólans á Akureyri útskrifaði 30 nemendur úr Leiðsögunámi þann 13. maí síðastliðinn. Þetta er í fyrsta skipti sem útskrifað er úr slíku námi utan höfuðborgarsvæðisins.

Útskrifaðir nemendur geta fengið aðild að Félagi leiðsögumanna. Námið var byggt á námskrá fyrir leiðsögunám, í samstarfi við Leiðsöguskólann og Samtök ferðaþjónustunnar og stunduðu nemendur nám í tvær annir.

Námið er víðfeðmt og fjölbreytt en því er ætlað að vera hagnýtt og taka mið af ólíkum þörfum ferðaþjónustunnar í takt við breytilegt ferðamynstur ferðamanna. Nemendur eru fræddir um leiðsögutækni, helstu ferðamannastaði, íslenskt samfélag, jarðfræði landsins, sögu og menningu, gróður og náttúruvernd, atvinnuvegi, bókmenntir og listir auk þjálfunar í erlendu kjörmáli svo nokkuð sé nefnt. Flestir völdu ensku en einnig valdi hópur þýsku sem kjörmál. Kennt var síðdegis eftir hefðbundinn vinnudag og farnar vettvangsferðir um helgar með SBA- Norðurleið.

Hópurinn ætti að vera kærkomin viðbót í flóru leiðsögumanna á norðurlandi en skortur hefur verið á menntuðum leiðsögumönnum í takt við mikla fjölgun ferðamanna á landinu.

Við útskriftina lék Dimitrios Þeodoropolus á gítar og ávörp fluttu Sigrún Stefánsdóttir staðgengill háskólarektors, Kristín Hrönn Þráinsdóttir fagstjóri Leiðsöguskólans, María Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi hjá Samtökum ferðaþjónustunnar og Óskar Þór Halldórsson fulltrúi nemenda.

Frá þessu er sagt á heimasíðu Símenntunar HA.

Fleiri fréttir