Skemmtilegt sundmót á laugardaginn
Hið árlega bikarmót Kiwanisklúbbsins Drangeyjar og Sunddeildar Tindastóls var haldið á laugardaginn í Sundlaug Sauðárkróks. Þar mættu til leiks 26 öflugir sundmenn, 17 ára og yngri.
Frá Sunddeild Tindastóls kepptu 14 sundmenn og frá nýstofnaðri Sunddeild Hvatar á Blönduósi kepptu 12 sundmenn sem voru flestir að keppa á sínu fyrsta móti. Allir keppendur stóðu sig með prýði og voru sjálfum sér og félagi sínu til sóma.
Fjölmargir starfsmenn á sundmótinu voru einnig að stíga sín fyrstu skref sem tímaverðir og dómarar, en Sunddeild Tindastóls og Sundsamband Íslands gengust fyrir dómaranámskeiði kvöldið fyrir mót.
Svo sem venja er hlutu allir sundmenn 10 ára og yngri þátttökuverðlaun en aldursflokkaverðlaun voru veitt eldri sundmönnum. Þá voru veittir bikarar þeim sundmönnum sem flest stig hlutu samanlagt í hverjum aldursflokki.
Nánari úrslit verður hægt að nálgast á vefsíðu Sunddeildar Tindastóls, http://www.tindastoll.is/index.php?pid=3
Mótinu lauk með verðlaunaafhendingu og veglegum veitingum á Mælifelli, í boði Kiwanisklúbbsins Drangeyjar.
/KMA