Stiklað á stóru í safnastarfi
Á heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga er stiklað á stóru í starfsemi safnsins á nýliðnu ári. Þar kemur m.a. fram að þrettán starfsmenn unnu við safnið og þeim til viðbótar tóku nítján aðrir þátt í verkefnum á vegum safnsins eða tengdum því og sex sjálfboðaliðar.
Eins og fram kemur í Feyki í dag voru skoðaðir ellefu staðir í Deildardal, Unadal og Hofshreppi hinum forna í samstarfi við starfsmenn byggðasögu Skagafjarðar. Samtals hafa verið rannsakaðir á sjötta tug staða í umræddu samstarfsverkefni.
Þá var lokið uppgreftri á elleftu aldar kirkjugarði á Stóru-Seylu með bandarískum samstarfsmönnum, SASS, sem hafa unnið að jarðsjár- og fornleifarannsóknum í Skagafirði undanfarinn áratug. Þeir voru einnig fengnir til að jarðsjármæla nokkrar jarðir í leit að fornum jarðlægum kirkjugörðum og varð vel ágengt. Einnig var kannaður elleftu aldar kirkjugarður sem kom í ljós við lagnaframkvæmdir í Keflavík í Hegranesi, eins og Feykir fjallaði um í haust.
